Fara í efni
Risakýrin Edda

Aðventa

GERVIGREIND - 14

Desember er sérstakur tími, blanda af hátíðlegum hefðum, samfélagslegum kröfum um að njóta og streituvaldandi undirbúningi í skammdeginu. Fyrir mér er aðventan þó fyrst og fremst tími samveru og endurmats á því sem skiptir raunverulega máli.

Ég man sérstaklega aðfangadag árið 2017 þegar ég var á dagvakt hjá slökkviliðinu. Rétt áður en klukkan sló sex fengum við útkall vegna elds í spennistöð við Miðhúsabraut. Þetta atvik var eins og eitthvað úr bíómynd – enginn á ferli, þögn og skyndilegt myrkur þegar rafmagnið var tekið af.

Eftir að eldurinn var slökktur höfðum við augnablik til að líta yfir hverfið. Þó að ábyrgðin á atvikinu væri ekki okkar, þá vorum við samt þátttakendur. Ég man þessa sérstöku jólatilfinningu – gleði og ró í skugga óvissunnar. Líklega fóru brúnuðu kartöflurnar fyrir bí á einhverju heimilinu.

Þessi reynsla, eins og svo margar aðrar, endurspeglar eðli starfs viðbragðsaðila. Hátíðarnar eru tími óvæntra atburða, sumir gleðilegir eins og að aðstoða við fjölskyldusameiningu, aðrir erfiðari þar sem bráð veikindi eða slys grípa inn í augnablikin sem eiga að snúast um nánd og samveru.

Ómælanlegi mannlegi þátturinn

Þegar ég horfi til baka til þessara ára í slökkviliðinu er ég þakklátur fyrir reynsluna. Hún minnir mig á að það eru ekki tölurnar, árangursmælingarnar eða skilvirknin sem standa upp úr, heldur ómæld augnablik mannlegrar samstöðu og samkenndar.

Við getum vissulega reynt að mæla hátíðarstundirnar – fjölda smákökutegunda, jólahefðir sem við náum að halda við, fjölda jólaboða eða fjölda pakka. En það sem skiptir máli og stendur upp úr fyrir mér eru stundirnar sem búa til minningar – þegar við erum til staðar, þegar við deilum tíma með fólkinu okkar og þegar við finnum fyrir tengingu sem ekki verður mæld.

Stafræn fasta

Í heimi þar sem tækni er orðin samofin daglegu lífi, verður sífellt mikilvægara fyrir mig að setja mörk. Tæknin krefst stöðugrar athygli, endalausra nýjunga eða frétta og samskipta yfir netið. Þess vegna hef ég ákveðið að tileinka mér stafræna föstu í aðdraganda jóla.

Markmiðin mín:

  • Tvær klukkustundir án snjalltækja daglega milli 08:00 og 22:00
  • Átta klukkustundir án snjalltækja á sunnudögum
  • Engin snjalltæki í jólaboðum og öðrum viðburðum
  • Engin snjalltæki eftir kl. 16:00 á hátíðardögum (muna að hlaða myndavélina)

Njótum aðdragandans

Aðventan býður upp á einstakt tækifæri til að hægja á og njóta, ekki bara lokaafurðarinnar heldur ferlisins.

Í næsta pistli mun ég líta yfir árið 2024 í heimi gervigreindar og velta fyrir mér hvað bíður okkar á árinu 2025.

Þangað til – njótum aðdragandans og stundanna með fólkinu okkar.

Gleðilega hátíð!

Magnús Smári Smárason er leiðsögumaður um gervigreind