Fara í efni
Rauði krossinn

„Mjög gott að fá alla í skólann aftur“

Frímínútur í Lundarskóla í morgun. Sumir nemendur áttu erfitt með að vakna í morgun en flestum fannst gaman að koma aftur í skólann og hitta vini sína. Mynd: SNÆ

„Það er bara ágætt að vera komin aftur,“ sagði Arney Steinþórsdóttir í 7. bekk þegar blaðamaður Akureyri.net leit við í Lundarskóla í morgun til að kanna stemminguna, eftir að kennsla hófst á ný að loknu verkfalli kennara síðustu fjórar vikur. Undir það tóku stöllur hennar Brynja Hólm Baldursdóttir og Elsa Kristín Egilsdóttir. Þær þrjár sögðust allar mest hafa verið að leika við vinkonur sínar síðasta mánuðinn og mæta á íþróttaæfingar. Voru þær sammála um að síðasti mánuður hefði bara verið skemmtilegur og þær væru ekkert búnar að sakna skólans.

Skólasysturnar Arney, Brynja og Elsa  í 7. bekk í Lundarskóla  sögðu að verkfallstíminn hefði bara verið skemmtilegur. Þær hefðu lesið aðeins, leikið við vinkonur og mætt á íþróttaæfingar og hefðu ekkert saknað skólans. 

Erfitt að vakna í morgun

Þórarinn Árnason og Arnór Berg Brynjarsson, báðir nemendur í 7. bekk virtust aðeins sáttari en stelpurnar við að vera komnir aftur í skólann. „Ég er pínu búinn að sakna skólans, en aðallega bara af því að þar hitti ég vini mína,“ sagði Þórarinn og Arnór tók undir það. Þeir viðurkenndu báðir að það hafi verið nokkuð erfitt að vakna í morgun og koma sér í skólann á réttum tíma, enda hefðu þeir fengið að sofa út í fríinu. „Við höfum verið að sofa til 10 hálf 11 á morgnana.“

Aðspurðir hvað þeir hefðu verið að gera í fríinu sögðust strákarnir aðallega hafa verið að leika við vini sína og fara á íþróttaæfingar. Þá lásu þeir aðeins í verkfallinu og Arnór segist hafa farið einu sinni í stærðfræði. Sögðust þeir vel geta hugsað sér að vera duglegir núna og voru vissir um að þeir gætu vel unnið verkfallstímann upp. Þegar blaðamaður spurði þá út í verkfallið og hvað kennarar vildu ná fram með því voru þeir nokkurn veginn með það á hreinu. „Verkfallið var út af því að kennarar vildu fá meiri laun. Ég er ekki alveg viss út af hverju en ég held það sé af því að þeir vinna of mikið fyrir lítil laun,“ sagði Þórarinn en báðir voru þeir sammála um að kennarastarfið geti verið mjög erfitt því kennarar séu að kenna mjög mörgum pirrandi krökkum, eins og þeir orðuðu það.


Þórarinn og Arnórí 7. bekk fannst gaman að mæta í skólann í morgun. Þeir telja sig vel geta unnið upp það sem þeir misstu af í kennaraverkfallinu með því að vera duglegir. 

Vinna þetta upp smá saman

„Stemmingin er góð. Ég var rosalega glöð að sjá alla kennarana aftur og svo tók ég rúnt um skólann og hitti nemendur. Það er mjög gott að fá alla í skólann aftur,“ sagði Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla við skólabyrjun í morgun. Tómlegt hefur verið í skólanum undanfarinn mánuð, en þó kennara og nemendur hafi vantað í skólann hafa aðrir starfsmenn mætt til vinnu. 

Spurð að því hvort hún telji að nemendur nái að vinna upp það sem þeir misstu af þennan mánuð sem kennaraverkfallið stóð yfir þá segist hún vera fullviss um það, það þurfi bara að skipuleggja skólastarfið eftir því. „Ég held þetta taki ekki langan tíma að koma sér aftur í rútínu. Við vissum alltaf að skólinn myndi byrja aftur 25.nóvember. Vissulega missa krakkarnir úr náminu, það er staðreynd, en smám saman þá held ég að við getum alveg unnið þetta upp. Við eigum alveg tíma eftir fram á vorið,“ segir Maríanna. 

- Verður þá ekkert jólaföndur í Lundarskóla í ár?

„Við ætlum ekki að hafa hurðaskreytingarkeppnina, sem hefur tekið alveg 2-3 daga að undirbúa. Við ætlum að setja hana til hliðar í ár. Svo er það bara undir kennurunum komið hvernig þeir skipuleggja dagana en ég held svona til að byrja með verði lögð áhersla á námsætlanir. Lífið er samt aðeins meira en bækurnar. Þetta snýst líka um samveru, samstarf og hópefli meðal nemenda og föndur er hluti af því.“

Kennarar ekki búnir að missa móðinn

Lundarskóli er einn af þremur grunnskólum landsins þar sem kennarar hafa verið í verkfalli undanfarnar fjórar vikur en tímabundin verkföll hafa verið boðuð í fleiri skólum eftir áramót hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þegar Maríanna var spurð að því hvort það hafi ekki verið svekkjandi fyrir kennara Lundarskóla að vera í verkfalli í mánuð án þess að samningar hafi náðst er svar hennar þetta: „Það er ekki beint svekkjandi að vera í verkfalli, hins vegar er dáldið skrítið að viðræður gangi ekki betur. En þetta er bara partur af þessu prógrammi. Við erum bara að gera okkar til að ná fram góðum kjarasamningum eða leiðrétta laun í rauninni. Við erum ekkert að missa móðinn en maður heyrir unga kennara hugsa sig aðeins um og velta fyrir sér framtíðinni. Sérstaklega af því að þau sjá launaseðilinn sinn og sjá svo launaseðla hjá eldri kennurum sem eru kannski  búnir að vinna við kennslu í 30 ár og hækkunin er ekki mikil. Lífeyrisréttindin  voru skert á sínum tíma, þannig að skiljanlega hugsar  fólk sig aðeins um. Það er spurning hvað unga fólkið vill fara að gera, því þetta er alveg snúið starf, bæði krefjandi andlega og svo er þetta mikil vinna.“ 

Séð yfir kennarastofuna í Lundarskóla í morgun. Kennarar voru mættir aftur til starfa eftir mánaðarlangt verkfall. Nú taka aðrir skólar við keflinu en verkfall hefur verið boðað í fjórum öðrum grunnskólum í janúar hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. 

Líf og fjör var í matsalnum í Lundarskóla í morgun.