Fara í efni
Rauði krossinn

Áslaug tekin við embætti rektors HA

Eyjólfur Guðmundsson og Áslaug Ásgeirsdóttir. Mynd: Háskólinn á Akureyri

Áslaug Ásgeirsdóttir er frá og með deginum í dag formlega tekin við embætti rektors Háskólans á Akureyri. „Ég er virkilega spennt fyrir komandi tímum og hlakka sérstaklega til að kynnast starfsfólki og stúdentum HA. Það er tilhlökkunarefni að halda áfram þeirri uppbyggingu sem þegar er í gangi í Háskólanum á Akureyri,“ segir Áslaug í tilkynningu frá skólanum.

 „Ýmis spennandi verkefni eru fram undan ásamt ýmsum áskorunum, til dæmis hvað varðar húsnæðismál og framhald viðræðna við Háskólann á Bifröst,“ segir Áslaug. „Ég er búin að búa lengi í lítilli borg í Maine í Bandaríkjunum og ég hlakka til að setjast að á Akureyri og kynnast mannlífinu hér. Það er mikið menningarlíf á Akureyri og í nágrenni bæjarins og svo er náttúran mjög falleg og aðgengileg.“

Í tilkynningunni frá HA segir ennfremur:

Eyjólfur Guðmundsson kveður nú Háskólann á Akureyri eftir farsæl tíu ár sem rektor. Saga hans við háskólann er þó mun lengri en hann starfaði við háskólann frá árinu 1999 til þar til hann tók til starfa hjá CCP sem aðalhagfræðingur árið 2007. Eyjólfur tók síðan við embætti rektors Háskólans á Akureyri 1. júlí 2014. „Háskólinn á Akureyri hefur náð fullorðinsárum sem háskóli. Doktorsnám, auknar rannsóknir og yfirfærsla þekkingar til samfélaga landsins alls verður mikilvægasta hlutverk skólans í allra nánustu framtíð og þar mun gervigreindin hafa mikil áhrif. Það er hlutverk háskólanna að undirbúa landið allt undir þá miklu byltingu sem fram undan er með innleiðingu gervigreindar á öll svið samfélagsins. Það verður því mikilvægara nú en nokkurn tímann að HA verði þungamiðja framþróunar og rannsókna, sérstaklega í samfélögum utan höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson í ávarpi sínu á Háskólahátíð (með aðstoð gervigreindarinnar) þegar hann horfði yfir farinn veg.

„Ég þakka fyrir samstarfið á liðnum áratug og beini því til starfsfólks og stúdenta háskólans að vera hugrökk og takast á við framtíðina með bjartsýni að leiðarljósi,“ segir Eyjólfur að lokum við þessi tímamót.