Fara í efni
Rauði krossinn

2024 – Skipulagsmál ávallt í brennidepli

Skipulagsmál vekja ávallt miklar umræður meðal íbúanna og sýnist sitt hverjum. Athugasemdakerfið á Facebook-síðu Akureyri.net tekur kipp þegar þar er deilt fréttum um byggingaráform, breytingu á skipulagi, hugmyndum um þéttingu byggðar og fleiru í þeim dúr. Íbúunum er ekki sama um skipulagsmál og það hlýtur að vera jákvætt þó oft séu athugasemdirnar sem fram koma frekar á neikvæðu nótunum. 

Áhugasamir íbúar voru upplýstir af formanni skipulagsráðs og skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar á opnum fundi á haustdögum þar sem farið var yfir helstu verkefni í skipulagsmálum, yfirstandandi og væntanleg, stefnu og framtíðarsýn. Þar gafst íbúum meðal annars tækifæri til að skrifa hugmyndir og ábendingar á litla gula miða og festa á myndir af tilteknum skipulagsreitum eða verkefnum í bænum.


Skipulagsuppdrættir skoðaðir fyrir opinn fund um framtíð skipulagsmála í bænum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri.net birti fjölmargar fréttir af skipulagsmálum á árinu og vöktu þær mismikla lukku meðal íbúanna, eins og gengur og gerist. Hér verður stiklað á stóru og tengt við fréttir af því helsta sem var á döfinni og í fréttum okkar í skipulagsmálum. 

„Íbúðir á efri hæðum“

Fjölbýlishús á óvæntum stöðum vöktu ugg hjá einhverjum, til dæmis þegar fjallað var um breytingu á skipulagi fyrir Austursíðu 2-6 vegna áforma um að byggja íbúðablokk á bílastæði, eins og einhverjir lesendur orðuðu það í athugasemdum þegar þetta mál bar á góma. Breytingin er gengin í gegn og mega íbúar vænta þess á næstu misserum að sjá byggingu rísa á horni Austursíðu og Síðubrautar þar sem gert verður ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð, en íbúðum á efri hæðum. 

Mörgum þótti þessi staðsetning fyrir íbúðablokk undarleg og hafa bent á að það sé alls ekki fjölskylduvænt að staðsetja nokkra tugi íbúða á bílastæði við Norðurtorg, eins og Jón Ingi Cæsarsson, fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar, orðaði það í aðsendri grein. Hann hefur einnig tjáð sig um önnur umdeild mál og spurt: Af hverju er deilt um skipulagsmál á Akureyri? Þar tekur hann dæmi af hugmyndum um byggingar fjölbýlishúsa á Oddeyri, við Tónatröð og Viðjulund og nefnir einnig Austursíðuna, hugmynd sem hann segir broslega, að byggja fjölbýlishús á umferðareyju.

Eflaust eigum við eftir að heyra og sjá þetta orðasamband, „íbúðir á efri hæðum“, oftar þegar fjallað er um skipulagsmál. Það var ekki bara við Austursíðuna sem slíkt var rætt. Mikil umræða skapaðist í bæjarstjórn um skipulagsreit nyrst í Hagahverfi, Naustagötu 13, og málið margoft á borðum skipulagsráðs, bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þar er líklegt að á næstu misserum rísi bygging með einmitt verslun og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Ekki voru þó öll á eitt sátt í bæjarstjórn um aðferðina við úthlutun lóðarinnar.


Horft úr suðri yfir lóðina Naustaveg 13 sem var talsvert í umræðunni á árinu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Íbúðir á efri hæðum voru einnig í brennidepli vegna hugmynda um byggingu fimm fjölbýlishúsa að Gleráreyrum 2-10. Það mál teygir reyndar anga sína lengra aftur, en fjallað var um breytingar á skipulagi við Gleráreyrar á árinu vegna þessara áforma. Á reitnum Hlíðarbraut 4, norðan við AK-inn og Orkuna, gæti líka risið bygging með einhvers konar verslun eða þjónustu á jarðhæð, en íbúðum á efri hæðum. Ekki virðist þó mikill áhugi á þessari lóð þrátt fyrir auglýsingar. Umsókn Orkunnar um lóðina til stækkunar á athafnasvæði fyrirtækisins hafði þó áður verið hafnað.


Hlíðarbraut 4, handan götunnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyri.net hefur nokkrum sinnum fjallað um tilvist leigubílastöðvar BSO við Hofsbót, sem þar hefur staðið með ítrekað framlengdum bráðabirgðaleyfum í áratugi. Undirskriftum var safnað í þeim tilgangi að hvetja til þess að þessi samastaður BSO yrði varanlegur. Þá hafði komið fram að BSO þyrfti að víkja með sex mánaða fyrirvara ef áhugasamir fjárfestar/verktakar vilja lóðirnar Hofsbót 1 og 3, en þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar hafa engar formlegar umsóknir borist um þær. Einhverjir höfðu áhuga, en settu fyrir sig að taka yrði báðar lóðirnar, en í skipulagi er gert ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara.

Ný hverfi rísa og þétting í þeim eldri

Móahverfið tekur smátt og smátt á sig mynd og á síðustu vikum ársins reis fyrsta blokkin í hverfinu - eflaust ekki langt að bíða þess að raðhúsin birtist hvert af öðru einnig. Þétting byggðar er meðal annars fyrirhuguð við Miðholt og snemma árs var tekin fyrsta skóflustungan að Skarðshlíð 20.

Holtahverfi austan Krossanesbrautar er óðum að taka á sig mynd. Þar rísa blokkir, raðhús og einbýlishús og nú þegar allmargir íbúar sem hafa flutt inn í íbúðarhúsnæði í hverfinu. 

Stúdentar þurfa þak yfir höfuið á meðan á námi stendur, eins og aðrir íbúar. Á árinu var kynnt niðurstaða í samkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum við gatnamót Dalsbrautar, Norðurslóðar og Borgarbrautar.

Barist fyrir lífi gamalla bygginga

Félagasamtökin Arfur Akureyrarbæjar hafa látið sig skipulagsmálin varða og meðal annars verið í fréttum vegna byggingaráforma, eða réttara sagt niðurrifsáforma. Á tveimur væntanlegum byggingar- eða skipulagsreitum standa byggingar sem samtökin og fleiri hafa bent á að best færi á að fengju að standa áfram.


Stórbýlið Lundur þar sem nú er Lundahverfi. Jakob Karlsson kaupmaður reisti Lund árið 1925 að fyrirmynd erlendra búgarða. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Eðvarð Sigurgeirsson.

Annars vegar er hér um að ræða reit við Viðjulund þar sem fyrirhugað er að rísi tvö háhýsi og að gamli bærinn, Lundur, muni víkja. Samtökin Arfur Akureyrar hafa bent á sögulegt mikilvægi bæjarins og mótmælt niðurrifi hans. Einnig telja samtökin misráðið að rífa bæinn Naust III, en á þeim reit er í vinnslu skipulag fyrir byggingu einbýlis- og raðhúsa.

Það er engin ástæða til þess að rífa niður steypu, til þess að setja nýja steypu í staðinn,“ sagði Árni Árnason, arkitekt og hönnuður, sem flutti fyrirlestur um verndargildi gamalla húsa í marsmánuði. Af hverju eigum við ekki að rífa gömul hús?

„Gamli, góði“ Allinn var jafnaður við jörðu og leikskólinn Pálmholt sömuleiðis. 

Lífsgæðakjarni eða jöfnunarstöð orð ársins?

Í fréttum af skipulagsmálum koma stundum fram hugtök sem fá lesendur til að hvá og spyrja hvað orðið merki eiginlega. Ef velja ætti orð ársins í skipulagsmálum kæmi hugtakið „lífsgæðakjarni“ mjög sterklega til greina hér í bæ enda snerist ein af fréttunum um lífsgæðakjarna í Holtahverfinu um skilgreiningu á því hvað átt er við með þessu hugtaki. „Jöfnunarstöð“ er eitt af þessum orðum og gæti einnig komið til greina sem orð ársins í skipulagsmálunum.

Á meðal þess sem fréttnæmt hefur þótt í Holtahverfinu eru áform um að þar verði hjúkrunarheimili og svokallaður lífsgæðakjarni. Nú þegar hefur verið gerður samningur milli Akureyrarbæjar og heilbrigðisráðuneytisins um byggingu hjúkrunarheimilis, þó deildar meiningar séu um gatnagerðargjöld

 

Unnið hefur verið að undirbúningi að flutningi jöfnunarstöðvar fyrir strætisvagna úr miðbænum að bakka Glerár norðan Borgarbrautar. Jöfnunarstöðin er einfaldlega miðpunktur í aksturskerfi strætisvagnanna þar sem allar leiðir eiga upphaf sitt og endi, aðstaða fyrir vagnstjóra og farþega, biðstaður vagna sem hafa lokið hringverð og bíða þess að hefja þá næstu. Þessi aðstaða gæti eins kallast miðstöð, aðalstoppstöð, tímajöfnunarstöð eða eitthvað annað. Annað mál sem tengist þessu sama svæði er áform um byggingu göngubrúar yfir Glerána nálægt Glerártorgi.

Hótel, sjúkrahús, skrifstofuháhýsi og rithöfundasetur

Nokkrar hótelbyggingar eða hugmyndir um slíkar voru í fréttum á árinu sem er að líða, til dæmis að Hafnarstræti 73-75, þar sem húsaröðin er að taka á sig mynd og framkvæmdir einnig á fullu við Hafnarstræti 80-82. Þá er gert ráð fyrir hótelbyggingu, algjörri holu í höggi eins og það var orðað í auglýsingu, á reit við hlið golfskálans við Jaðarsvöll. Á fyrri hluta ársins var útlitið á nýbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri kynnt.

Á meðal annarra frétta af áhugaverðum áformum í skipulags- og byggingarmálum má nefna áhuga dótturfélags KEA, fjárfestingarfélagsins Klappa, á að byggja níu hæða skrifstofubyggingu á baklóð við Glerárgötu 36. Skemmtileg skipulagsfrétt barst úr Grímsey í sumar, en þar hyggst Cillín Johann Perera, í nafni nthspace á Íslandi ehf., breyta gömlum íbúðarhúsum í rithöfundasetur eða athvarf fyrir aðra listamenn. Lítið þorp mun í framtíðinni rísa í landi Ytri-Varðgjár

Slökkvistöð, dýraspítali, Blöndulína og heilsugæsla

Staðsetning fyrir nýja slökkvistöð var einnig til umfjöllunar á árinu, en hún mun væntanlega rísa á lóðum 3 og 5 við Súluveg, sem þýðir að Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar þarf að leita annað eftir hentugu svæði fyrir byggingu dýraspítala sem hugmyndin var að risi á umræddu svæði.

Flutningur og staðsetning spennistöðvar í byggingu Sundlaugar Akureyrar kom til kasta skipulagsráðs síðla árs, hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Akureyrarvallar er í vinnslu, næsta heilsugæslustöð kom og fór aftur af tjaldsvæðisreitnum, en áfram er unnið að hugmyndum um framtíðaskipulag reitsins.

Blöndulína 3 hefur reglulega ratað í skipulagsfréttirnar þar sem meðal annars hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi vegna lagningar línunnar ofan Akureyrar. Bæjarráð skipaði samninganefnd fyrir hönd bæjarins vegna málsins en fyrr í þessum mánuði samþykkti skipulagsráð aðalskipulagsbreytingu þar sem gert er ráð fyrir að umrædd háspennulína verði öll ofanjarðar.

Í lauslegri yfirferð í lok ágúst kom fram að þá voru um 400 íbúðir í byggingu á Akureyri, auk þess sem lóðum hafði verið úthlutað þar sem byggja má 170 íbúðir. Leikskóli verður byggður af Húsheild-Hyrnu þar sem bærinn Naust II stendur, milli Haga- og Naustahverfis.

Þau fengu þennan dóm

Sum byggingaráform verða svo aldrei að veruleika, er frestað eða þau slegin út af borðinu eftir langt ferli og mögulega hörð mótmæli og miklar umræður. Ef til vill koma ekki margir Akureyringar í götu sem ber nafnið Tónatröð, en þetta götuheiti hefur verið ítrekað i fréttum undanfarin missieri og á milli tannanna á fólki, eins og sagt er, vegna áforma og umsóknar um að byggja þar nokkur fjölbýlishús.

Hugmyndirnar féllu í grýttan jarðveg hjá mörgum og málið vafðist lengi fyrir bæjaryfirvöldum þar til bæjarstjórn ákvað í lok október að draga til baka ákvörðun sína frá því í mars 2023 um að kynna deiliskipulagsbreytingu á svæðinu

Ef til vill má líkja Tónatraðarmálinu, og örugglega fleiri hugmyndum sem koma upp hjá verktökum og fjárfestum um byggingar og skipulag, við hendingu úr kvæði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi:

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.

Þó þessi fræ hafi fallið í jörð og ekki orðið að blómum er ekki þar með sagt að aldrei verði byggt á umræddu svæði við vestanverða Tónatröð. Áformin sem voru uppi urðu ekki að veruleika, en nýjar hugmyndir gætu kviknað og einhvers konar byggð risið á svæðinu.

En svo eru önnur áform sem ganga eftir og upp rísa byggingar til alls konar nota. Sumar falla íbúunum í geð, aðrar ekki. 

Skipulagsmál á Akureyri.net