Fara í efni
Pílukast

„Sjally Pally“ festi sig í sessi – MYNDIR

Verðlaunahafar á Akureyri Open brosa fyrir ljósmyndarann Ármann Hinrik á sviðinu í Sjallanum! Frá vinstri: Alexander Veigar, Matthías Örn Friðriksson, Dilyan Kolev, Valur Guðbjörn Sigurgeirsson, Brynja Herborg, Þröstur Þór Sigurðsson og Ingibjörg Magnúsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Frábær stemning var í Sjallanum á laugardagskvöldið þegar fram fór útsláttarkeppni stærsta pílumóts í sögu bæjarins – Akureyri Open 2024. Mótið fór nú í fyrsta skipti fram á þessum sögufræga skemmtistað, öllu var tjaldað til og ljóst að Sjally Pally hefur fest sig í sessi strax í fyrstu tilraun!

Dilyan Kolev frá Vopnafirði sigraði í karlaflokki, vann Matthías Örn Friðriksson frá Grindavík í úrslitum, og Brynja Herborg bar sigur úr býtum í kvennaflokki eftir sigur á Ingibjörgu Magnúsdóttur. Brynja er Akureyringur og búsett þar en keppir fyrir Pílukastfélag Reykjavíkur. Þröstur Þór Sigurðsson hreppti Forsetabikarinn; keppni þeirra sem duttu út fljótlega á mótinu. Hann vann Val Guðbjörn Sigurgeirsson í úrslitaeinvíginu. Þá fékk Alexander Veigar viðurkenningu fyrir að ná oftast allra 180 stigum á mótinu.

„Við ætlum að spila pílu ... “ Halldór Kristinn Harðarson fór á kostum sem kynnir mótsins. Dilyan Kolev og Matthías Örn, sem léku til úrslita, við hlið Halldórs á efri myndunum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyri Open hefur til þessa verið haldið í aðstöðu píludeildar Þórs í íþróttahúsinu við Laugargötu en aðsókn var svo mikil að sýnt þótti að finna yrði annan og stærri stað. Sjallinn var það heillinn, og Sjally Pally varð að veruleika. Vísunin er vitaskuld í Ally Pally, Alexander Palace í London þar sem hið geysivinsæla heimsmeistaramót fer fram árlega.

Keppendur voru 160. Mótið hófst á föstudag þar sem pílum var kastað á öllum hæðum hússins og áfram var haldið á laugardagsmorgni. Áhorfendur voru margir en stóri salurinn í Sjallanum var þéttsetinn þegar útsláttarkeppnin fram á stóra sviðinu á laugardagskvöld – 270 manns greiddu aðgangseyri – og fólk skemmti sér konunglega.

Bekkurinn var þétt setinn í Sjallanum á laugardagskvöldið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs og Halldór Kristinn Harðarson, vert í Sjallanum – sem fór á kostum sem kynnir – voru himinlifandi með hvernig til tókst og sögðu engan vafa á því að mótið með þessu sniði hefði þegar í fyrstu tilraun fest sig í sessi! Ekki yrði aftur snúið.

Enda segir á Facebook síðu píludeildar Þórs:

Sami staður, stærra partý, fleiri ljós, fleiri myndavélar, fleiri og stærri skjáir, sami kynnir. Við ætlum að toppa #SJALLYPALLY24 
Skráning hefst í janúar 2025 og mótið verður í febrúar 2025 setjið í calendar! Við erum bara rétt að byrja!
 
Óhætt er að segja að Akureyri Open hafi verið mikið ævintýri að þessu sinni. Þórsarar tala um að stærra partý sé í vændum; allir vita að pílukast er gríðarlega vinsælt í Englandi og þaðan er ekki langt til Akureyrar. Er ekki næsta skref að velta fyrir sér hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi beint flug easyJet frá London til Akureyrar? Enginn draumur er of fáránlegur til að velta honum að minnsta kosti fyrir sér! 
 

Dilyan Kolev var vel fagnað af stuðningsmönnum sínum eftir að hann lagði Matthías Örn í úrslitaleiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Mótinu var streymt alla helgina á miðlum Matthíasar Arnar Friðrikssonar, m.a. Live Darts Iceland á Youtube. Exton sá um upptöku og útsendingu. Sjá hér og hér má sjá stutt myndbrot úr Sjallanum.