Píludeild Þórs er fjölmennust allra
Píludeild Þórs er er fjölmennasta aðildarfélagið innan Íslenska pílukastsambandsins (ÍPS). Tölur yfir fjölda félagsmanna í hverju aðildarfélagi eða deild voru birtar nýlega.
Félagsmenn í ÍPS árið 2023 eru samtals 557. Píludeild Þórs er skráð með 105 félaga en Pílufélag Hafnarfjarðar með 104. Á lista ÍPS eru níu aðildarfélag en tekið fram að sum hafi ekki skilað inn félagaskrá fyrir þetta og því ekki talin með.
„Gríðarlegur vöxtur hefur verið hjá okkur í píludeild Þórs síðastliðin ár, mikil fjölgun meðlima og við finnum að áhuginn er mjög mikill,“ segir Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, við Akureyri.net.
Píludeild Þórs er mjög góða aðstöðu í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu, en Davíð segir reyndar langt frá því að hún geti rúmað þann fjölda sem stundi íþróttina í dag. „Í dag eru 17 píluspjöld í aðstöðunni og engin leið til að fjölga þeim. Aðstaðan rúmar ekki fleiri en 60 manns hverju sinni, sem er um helmingur af virkum meðlimum hjá okkur, það eru ákveðin vonbrigði,“ segir formaðurinn.
„Stórt skref var fyrir píludeildina þegar hún fluttist úr stúkunni á Þórssvæðinu yfir í Laugargötu en nú er kominn tími til að taka næsta stóra skref. Vonandi förum við að sjá áætlanir hjá Akureyrarbæ varðandi íþróttahús á Þórssvæðinu þar sem rými verður fyrir alla okkar meðlimi og fleiri til.“
Davíð segir píludeildina reyna að höfða til allra aldurshópa. „Deildin er byrjuð með æfingar fyrir krakka og unglinga tvisvar í viku, almennar æfingar fyrir meðlimi tvisvar í viku, konukvöld á þriðjudögum tvisvar í mánuði, erum í samstarfi við verkefni hjá Akureyrarbær sem ber heitið „Virk efri ár“ og svo eru mót hjá okkur flestar helgar. Það er því af nógu að taka fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa pílukast,“ segir Davíð.
„Við höldum þó áfram á sömu braut og hvetjum þá sem hafa áhuga á pílukasti að kíkja til okkar og prófa! Pílukast er fyrir alla.“