Fara í efni
Pílukast

Erlingur, Guðmundur, Björn og Hrefna heiðruð

Hlutu heiðurviðurkenningu! Frá vinstri: Guðmundur Bjarnar Guðmundsson, Hrefna Brynjólfsdóttir, Erlingur Kristjánsson og Kristín Hrönn Hafþórsdóttir með viðurkenningu eiginmans síns, Björns Halldórs Sveinssonar, sem átti ekki heimangengt. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fjögur hlutu í gær heiðursviðurkenningu Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri. Það voru Þórsarinn Björn Halldór Sveinsson, KA-fólkið Erlingur Kristjánsson og Hrefna Brynjólfsdóttir, og Guðmundur Bjarnar Guðmundsson úr Skíðafélagi Akureyrar.

Viðurkenningarnar voru veittar á íþróttahátíðinni sem Akureyrarbær og Íþróttabandalag Akureyrar stóðu fyrir í Hofi, þar sem kjöri íþróttafólks  Akureyrar 2024 var lýst. Í umsögnum um fjórmenningana sagði meðal annars:

Björn Halldór Sveinsson er fæddur á Akureyri þann 10. janúar 1963. Hann lék á yngri árum knattspyrnu með Þór, en skipti síðan yfir í körfuknattleik og lék lengi með meistaraflokki félagsins. Eftir að keppnisferlinum lauk þjálfaði Björn yngra flokka félagins um tíma og hefur einnig lengi verið mjög öflugur sjálfboðaliði körfuknattleiksdeildar Þórs. Sem slíkur var Bjössi um árabil einn öflugasti dómari deildarinnar og dæmdi bæði leiki yngri flokka meistaraflokka.

Erlingur Kristjánsson er fæddur á Akureyri þann 7. maí 1962. Á löngum og farsælum keppnisferli spilaði bæði knattspyrnu og handknattleik  og er í fámennum hópi íþróttamanna sem hafa orðið Íslandsmeistarar bæði í handknattleik og í knattspyrnu. Ekki nóg með það; Erlingur var fyrirliði KA í báðum greinum þegar félagið varð Íslandsmeistari og veitti því bikarnum viðtöku í bæði skiptin. Eftir að Erlingur lagði keppnisskóna á hilluna hefur hann þjálfað mikið fyrir KA og sinnt ýmsum stjórnar- og trúnaðarstörfum fyrir félaigð.

Guðmundur Bjarnar Guðmundsson er fæddur á Akureyri þann 19. september 1962. Hann hefur í áratugi starfað fyrir Skíðafélag Akureyrar og áður í Skíðaráði Akureyrar, setið í stjórn og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum. Guðmundur hefur í rúm 30 ár starfað að Andrésar andarleikum og einnig unnið í kringum Hermannsgönguna og undanfara hennar meira og minna frá árinu 1994. Sjálfur er Guðmundur mikill skíðagöngumaður og hefur til að mynda oft tekið þátt í Vasa-göngunni í Svíþjóð.

Hrefna Brynjólfsdóttir er fædd á Akureyri þann 18. maí 1965. Hún lék knattspyrnu með KA á sínum yngri árum en hóf einnig snemma að stunda blak og upplýst var í gær að hún leikur nú 45. blakárið með KA! Samhliða því að spila blak hefur Hrefna verið í ýmsum störfum og hlutverkum utan vallar fyrir blakdeild KA síðustu tvo áratugina.