Fara í efni
Óveður

Viðvörun vegna afleitrar veðurspár

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Norðurlandi eystra vegna afleitrar veðurspár; viðvörunin verður í gildi frá því klukkan 7 í fyrramálið, þar til kl. 6 að morgni miðvikudags.

Á morgun, þriðjudaginn 10. október, gengur í hvassa norðlæga og síðan norðvestlæga átt á norðanverðu landinu með mikilli úrkomu. Veður fer kólnandi og því má búast við snjókomu til fjalla. Lítill snjór er fyrir í fjöllum, en þó er ekki útilokað að fyrstu snjóflóð haustsins falli í bröttum hlíðum ef snjósöfnun verður hröð, að mati Veðurstofunnar.

Á áðurnefndum tíma, frá kl. 7 í fyrramálið til kl. 6 á miðvikudagsmorgun, hljóðar spáin svo fyrir svæðið: Norðvestan og norðan 15-23 metrar á sekúndu og rigning eða slydda, en snjókoma á heiðum, allvíða talsverð eða mikil úrkoma. Færð versnar því ört á fjallvegum og samgöngutruflanir eru líklegar.
 
  • Hvað þýðir appelsínugul viðvörun? Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum, tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin.