Fara í efni
Óveður

Trampólín á flugi en lægir með kvöldinu

Trampólin sem fauk í Lundahverfi í morgun endaði ferðalagið með því að vefja sig utan um ljósastaur. Ólíklegt er að hoppað verði á þessu trampólíni framar. Mynd: Hörður Geirsson

Bálhvasst hefur verið á hluta landsins í morgun, þar á meðal við Eyjafjörð. Ekki er vitað um skemmdir vegna foktjóns á Akureyri en einstaka trampólín hefur þó tekið upp á því að ferðast spölkorn án samþykkis eigenda.

Á Akureyri hefur verið sterk sunnan- og suðvestan átt. Veðurstofan gaf út gula viðvörun vegna hvassviðris, fyrr Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra og Miðhálendið.

Viðvörunin tók gildi klukkan 9 í morgun og gildir til klukkan 20 í kvöld. Í hádeginu var suðaustan átt á Akureyri, 15 metrar á sekúndu, en 16 stiga hiti. 

Á Facebook síðu Akureyrarbæjar var fólk hvatt til þess að ganga úr skugga um að trampólín á lóðum séu tryggilega fest og með birt myndband af trampólíni á flugi í morgun. „Þessu trampólíni í Giljahverfi var bjargað áður en það olli frekara tjóni, og við fengum leyfi frá eigandanum til að birta myndbandið, öðrum til viðvörunar,“ segir hér. Smellið hér til að sjá myndbandið.

Mjög hvasst hefur verið á Akureyri síðustu daga. Líklega má segja að hnjúkþeyr hafi bæði hrellt og glatt Eyfirðinga því vindur er hlýr og því má vænta að brúsandi þurrkur – eins og stundum var tekið til orða í gamla daga – hafi glatt bændur ef einhverjir eru enn í heyskap. 

Leiruvegurinn um hádegisbil. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Það blés hressilega úr suðri í morgun þegar þota Transavia kom til Akureyrar frá Rotterdam í morgun og hélt sömu leið til baka. Mynd: Þorgeir Baldursson