Spennandi samstarf um nýsköpun innan starfandi fyrirtækja
Drift EA, miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi, gerði nýverið samstarfssamning við sænska frumkvöðlafélagið Sting sem hefur 22 ára reynslu í að byggja upp öflugt nýsköpunarsamfélag og hefur þróað aðferð við að tengja nýsköpunarfyrirtæki við rótgróin fyrirtæki með mjög góðum árangri.
Drift EA fékk í vor Lóustyrk frá háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu vegna samstarfsins við Sting. „Við erum sannfærð um að þekkingin sem kemur inná svæðið með þessum stuðningi frá ráðuneytinu muni skila sér margfalt til baka,“ segir Sesselja Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA.
Skrifað var undir samstarfssamning félaganna í vikunni. Sesselja segir að samstarfið sé mjög spennandi því starfsfólk Sting sé tilbúið að deila því sem þeirra félag hefur lært og þróað varðandi nýsköpun innan starfandi fyrirtækja og hvernig Sting hefur byggt upp prógrömmin sín á 22 árum.
Mjög mikill árangur
„Sting hefur náð svakalega flottum árangri í að byggja upp vistkerfi nýsköpunar, þeir hafa alltaf leitað að gati á markaði og markvist fyllt upp í það með lausnum. Ein af þeim lausnum var að tengja frumkvöðla við starfandi fyrirtæki og nýta þannig kraftinn og hugvitið sem er oft í frumkvöðlunum inn í fyrirtækjaumhverfið,“ segir Sesselja.
„Stöndug fyrirtæki eru oft svo önnum kafin við að sinna daglegum rekstri að þau hafa hvorki tíma né mannskap til að hugsa um þróunarverkefni. Með því að tengja saman nýsköpunarfyrirtæki og starfandi fyrirtæki hefur Ignite Sweden, eitt margra fyrirtækja sem orðið hafa til hjá Sting, verið að ná 63% árangurshlutfalli,“ segir hún.
„Árangur í þessum skilningi felst í því að það hefur orðið jákvæð tenging á milli fyrirtækja og frumkvöðla sem hefur leitt af sér þróunarverkefni innan fyrirtækja eða nýsköpunarfyrirtæki. Í sumum tilfellum hefur frumkvöðullinn jafnvel haldið áfram að starfa með fyrirtækinu í kjölfarið. Þessar tengingar leiddu til þess að úr varð svokallaður tengivettvangur í Svíþjóð – kallaður matchmaking method á ensku – þar sem frumkvöðlar eru tengdir við fyrirtæki sem hafa skráð inni tækifæri eða áskoranir sem þau vantar mögulega aðstoð við.“
Ráðherra nýsköpunar kynnti sér starfsemina. Frá vinstri: Sara Hamlin, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra, Magnus Rehn og Edda Lára Lúðvígsdóttir.
„Með samstarfi við Sting mun Drift EA tengjast inná þennan tengivettvang og mun Sting aðstoða okkur við aðlaga hann að íslenskum aðstæðum og þjálfa nýsköpunarfyrirtæki frá Íslandi í að vera tilbúin í samstarf við rótgróin fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum. Drift EA mun í gegnum þennan vettvang hafa aðgengi að hundruð nýsköpunarfyrirtækja sem við getum tengt við íslensk fyrirtæki sem hafa farið í gegnum tengivettvanginn, sem getur orðið „leikbreytir“ fyrir íslensk fyrirtæki sem og íslenska frumkvöðla,“ segir Sesselja.
Til stendur að fólk frá Sting komi til Akureyrar nokkrum sinnum á þessu ári og bjóði uppá námskeið og vinnustofur og deili þannig þekkingu og reynslu með kjarnateymi Driftar EA og jafnvel til stjórnenda fyrirtækja sem hafa áhuga á taka þátt.
Oft þurfa frumkvöðlar bara að komast í eitt tæki eða í samstarf til að sannreyna ákveðna vöru eða þjónustu og hafa þá miklu meira í höndunum til að selja fjárfestum eða halda þróuninni áfram. Þetta getur gefið frumkvöðlunum stærri stökkpall heldur en fjármagn úr opinberum sjóðum og í einhverjum tilfellum gæti lausnin nýst fyrirtækinu líka.
Samstarf framfarasóknin
„Stærsta framfarasóknin í nýsköpun er samstarf. Það eykur líkurnar á að frumkvöðlar nái árangri. Samstarfið getur verið margskonar, hér er ég að tala um samstarf við Svíþjóð en einnig viljum við hefja samstarf við fyrirtæki á svæðinu okkar,“ segir Sesselja.
„Ef við tökum sem dæmi þróun á nýjum tækjabúnaði þá er mjög erfitt að fá styrki fyrir tækjakaupum á Íslandi. Það getur verið langt á milli frumkvöðla á landsbyggðinni svo aðgengi að innviðum á höfuðborgarsvæðinu er ekki endilega kostur fyrir okkur. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og ekki hagkvæmt að byggja upp innviði útum allt til prófunar. Það er hinsvegar til fullt af innviðum innan starfandi fyrirtækja hér á svæðinu og fyrir marga frumkvöðla getur verið mikill akkur í að komast í þeirra aðstöðu og tæki í stutta stund. Oft þurfa frumkvöðlar bara að komast í eitt tæki eða í samstarf til að sannreyna ákveðna vöru eða þjónustu og hafa þá miklu meira í höndunum til að selja fjárfestum eða halda þróuninni áfram. Þetta getur gefið frumkvöðlunum stærri stökkpall heldur en fjármagn úr opinberum sjóðum og í einhverjum tilfellum gæti lausnin nýst fyrirtækinu líka. Það er mikil jákvæðni á svæðinu til að taka þátt í þessar uppbyggingu með okkur. Fyrirtæki hafa boðið fram sína þekkingu, aðstöðu og jafnvel fjármagn og fögnum við því,“ segir Sesselja að lokum.
Kjartan Sigurðsson, Arnar Árnason, Kristján Þór Júlíusson, Magnus Rehn og Sara Hamlin.