Fara í efni
Óveður

Rúna í Barði – þreif Gamla skóla í 48 ár

Mynd: Guðni Þórðarson 1960

GAMLI SKÓLI – 12

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Rúna í Barði, Kristrún Júlíusdóttir, hóf störf við skólann haustið 1912, þrítug að aldri, og lét af störfum vorið 1960. Við skólaslit 17da júní 1937, á 25 ára starfsafmæli Rúnu í Barði, gaf skólinn henni hægindastól. Sigurður skólameistari flutti þá ræðu og sagði m.a.:

Hér á skólagöngunum má oft sjá á ferli grannvaxna konu, nokkuð við aldur, en þó létta í spori og hreyfingum. Hefir hún oftast meðferðis mikla lyklakippu, rýjur og þurrkur, sóp og skolpfötur. Þessi kona er Rúna í Barði. Þá er skólabjöllunni er hringt í lok síðustu kennslustundar dag hvern, kemur hún jafnskjótt á göng og gólf og tekur til starfa, þvær og þurrkar, strýkur ryk og dust af borðum og bekkjum. Gengur hún með ræstigögn sín og þvottatæki stofu úr stofu. Það er sagt um Hómer, að hann dotti stundum í list sinni. Rúna í Barði er í því Hómer fremri, að hún dottar aldrei í iðju sinni né embætti, vanrækir það aldrei. Henni eru aldrei mislagðar hendur í skólastarfi sínu. Hún er árrisul, enda vekur hún suma morgunsvæfa nemendur. Hún er komin til starfa fyrir allar aldir á morgnana, hyggur að, hvort allt sé í lagi, áður en kennsla byrjar, opnar kennarastofuna og tekur til handargagns blöð og tímarit, sem þar hafa safnazt á borðið kvöldið áður. Hún lítur eftir, að allt sé í röð og reglu í ríki sínu, áður en hin daglega barátta er hafin í Valhöll vorri.

Davíð frá Fagraskógi var samtíða Rúnu í Barði veturinn 1922 til 1923 þegar hann kenndi sögu í öllum skóla. Freistandi er að álíta að ein kveikjan að kvæði hans Konan sem kyndir ofninn minn, sem birtist í kvæðabók hans Nýjum kvæðum 1929, sé Rúna í Barði. Í kvæðinu kemur fram hlýhugur skáldsins til þeirrar konu sem vinnur verk sín hljóð eins og Rúnu í Barði.

Ég finn það gegnum svefninn,að einhver læðist innmeð eldhúslampann sinn,og veit, að það er konan,sem kyndir ofninn minn,sem út með ösku ferog eld að spónum berog yljar upp hjá mér,læðist út úr stofunniog lokar á eftir sér.

Ég veit að hún á sorgir,en segir aldrei neitt,þó sé hún dauða þreytt,hendur hennar sótugarog hárið illa greitt.Hún fer að engu óðer öllum mönnum góðog vinnur verk sín hljóð. -Sumir skrifa í öskunaöll sín bestu ljóð.

Ég veit að þessi konaer vinafá og snauðaf veraldlegum auð,að launin, sem hún fær,eru last og daglegt brauð.En oftast er það sá,sem allir kvelja og smá,sem mesta mildi á. -Fáir njóta eldanna,sem fyrstir kveikja þá.

  • Rúna í Barði er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.