Fara í efni
Óveður

Rafmagn fór af öllum bænum

Akureyrarflugvöllur er umflotinn vatni. Ljósmynd: Hörður Geirsson

Rafmagnslaust varð á Akureyri í nokkrar mínútur um eittleytið. Rafmagn fór af öllum bænum og kom neyðarstjórn Norðurorku saman rétt í þessu og fer yfir stöðuna með tilliti til veðurs.

Akureyri.net birtir frekari upplýsingar um leið og mál skýrast.

Sjór gengur víða á land á Oddeyri eins og áður kom fram og þá er Akureyrarflugvöllur umflotinn vatni eins og sjá má á myndum Harðar Geirssonar.

VIÐBÓT KLUKKAN 13.20 – Rafmagnslaust er frá Blöndu á Norðurlandi alveg að Höfn í Hornafirði á Suðausturlandi. Unnið er að viðgerð og upplýsingafulltrúi Landsnets segir að röð atvika hafi valdið biluninni. Vísir segir frá þessu.

„Það fóru út línur, Fljótsdalslína 4 sem liggur frá Alcoa í Fljótsdal, og við það kom upp svona röð atvika sem varð þess valdandi að straumlaust varð á þessu svæði. Við erum að vinna í því núna að byggja upp kerfið og það er eiginlega ómögulegt að vita hvað það tekur langan tíma. Vonandi verður það ekki langur tími,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets á Vísi.

„Það er eiginlega meira og minna rafmagnslaust frá Blöndu, Blönduósi, að Höfn í Hornafirði. Þetta er bara stór hluti af landinu,“ bætir hún við.

Hægt er að fylgjast með tilkynningum frá Landsneti hér og fylgst verður með vendingum í veðri í vaktinni á Vísi.

 Lesendur mega gjarnan senda ábendingar um um fréttir vegna veðurins á skapti@akureyri.net eða hringja í 6691114.