Óveður
Óveðursaðstoð fram undir morgun
13.11.2024 kl. 10:30
Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, aðstoðaði við ýmis verkefni vegna foks í gær og í nótt. Hér er hugað að auglýsingaskilti við Glerártorg. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Verkefnin hjá okkar besta fólki í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, hafa verið af ýmsum toga í rokinu sem gengið hefur yfir frá því í gær. Fyrsta útkall til aðstoðar vegna hluta sem voru að fjúka kom um kl. 16:30 í gær og svo áfram í gærkvöld og fram undir morgun.
Björgunarsveitarfólk var kallað til hjálpar vegna fjúkandi skiltis um kl. 16:30 í gær og á meðan á því verkefni stóð var óskað eftir frekari aðstoð í bænum vegna fjúkandi trampólíns og annarra fokverkefna, að því er fram kemur á Facebook-síðu sveitarinnar. Þeirri verkefnahrinu lauk um kl. 20 í gærkvöld.
Sveitin var svo kölluð út að nýju í óveðursaðstoð um klukkan tvö eftir miðnætti vegna fjúkandi garðskúra og fleira. Þau verkefni stóðu yfir fram undir morgun. Gul viðvörun er í gildi fram yfir hádegi, en þó nú sé stund milli stríða má eiga von á að björgunarsveitarfólk þurfi eitthvað að aðstoða okkur hin um helgina því von er á norðanskoti og hríð frá föstudegi fram á sunnudag, eins og Akureyri.net greindi frá í gær. Björgunarsveitin hvetur fólk til að huga áfram að lausamunum enda er von á sterkum vindi um helgina.