Fara í efni
Óveður

Norðanskot með hríð – vetrarveður á leiðinni

Gul viðvörun er fyrir allt landið á föstudag og laugardag. Á vef Veðurstofunnar segir, við þetta kort: Stormur eða rok á norðanverðu landinu. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli ofankomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum bæði á fjallvegum sem og á láglendi. Samgöngutruflanir líklegar. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Gera má ráð fyrir að veðrið sem nú gengur yfir með hvössum vindi standi fram eftir degi á morgun. Veðurstofa Íslands gaf út gula veðurviðvörun fyrir allt landið og spáin sem gildir fram til kl. 18 á morgun gerir ráð fyrir varasömu ferðaveðri, hvössum suðvestanvindi, 15-23 m/s og vindhviðum yfir 35 m/s. Varasamt er að vera á ferð á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi, eins og það er orðað í viðvöruninni.

Það verður síðan stutt storma á milli því strax á föstudagsmorguninn kl. 6 tekur gildi ný viðvörun og þá lætur veturinn vita af sér að nýju. Gert er ráð fyrir stormi eða roki á norðanverðu landinu. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll. Þá er einnig spáð talsverðri eða mikilli ofankomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, bæði á fjallvegum og á laglendi. Líklegt er að truflanir verði á samgöngum. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám.

Eins og staðan er núna miðað við það sem veðurfræðingar sjá fram í tímann stendur þessi hríðarviðvörun í tvo og hálfan sólarhring, frá föstudagsmorgni fram til miðnættis á sunnudagskvöld. Mikið vetrarveður á leiðinni innan örfárra daga og útlit fyrir að það vari eitthvað fram í næstu viku. 

Íþróttaviðburðir í hættu?

Það verður áhugavert og veldur ef til vill áhyggjum víða, hvaða áhrif norðanskotið mun hafa á hina ýmsu íþróttakappleiki og -viðburði sem fyrirhugaðir eru á næstu dögum. 

Fyrsta Goðamót Þórs í knattspyrnu þennan veturinn er á dagskrá um komandi helgi þar sem ætlunin er að piltar í 5. flokki takist á. Goðamótin hefjast að jafnaði síðdegis á föstudegi og standa fram á miðjan sunnudag. Eflaust veldur veðurspáin foreldrum pilta sem ferðast þurfa á mótið áhyggjum.

Akureyrsk lið í blaki, handbolta, íshokkí og körfubolta eru með leiki á dagskránni, ýmist heima eða að heiman.

Fimmtudagur 14. nóvember

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttamiðstöðin í Vestmannaeyjum - gamli salur kl. 17:30
    HBH - Þór
  • Olísdeild karla í handknattleik
    Kaplakriki í Hafnarfirði kl. 18
    FH - KA
  • Grill 66 deild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA/Þór - Fjölnir
  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SFH - SA

Föstudagur 15. nóvember

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 18
    KA - Þróttur Fjarðabyggð 
  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - KV 
  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 20:15
    KA - Aftureldinig 

Laugardagur 16. nóvember

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Ásvellir í Hafnarfirði kl. 15:30
    Haukar - Þór

Sunnudagur 17. nóvember

  • Powerade-bikar karla í handknattleik
    Ísafjörður kl. ?? (ótímasettur)
    Hörður - KA