Fara í efni
Óveður

Gul og appelsínugul veðurviðvörun

Nánari upplýsingar á vedur.is.

Lögreglan á Norðurlandi eystra og Veðurstofa Íslands hafa vakið athygli á því að fyrsta haustlægðin er væntanleg á Norðurlandið. Gul veðurviðrörun er í gildi frá miðnætti í nótt og fram til kl. 18 á morgun, mánudag. Að því búnu tekur við appelsínugul viðvörun í sólarhring, fram til kl. 18 á þriðjudag. Sjá nánar á vedur.is.

Snjókoma í kortunum

Lögreglan bendir á í færslu á Facebook að kalt verði í veðri og talsverð úrkoma muni fylgja lægðinni. Viðvaranir eru aðallega vegna snjókomu og ljóst að samgöngur geta raskast verulega, sér í lagi aðfararnótt þriðjudags. 

Hvetjum við alla til að huga að þessu í sínu nærumhverfi og þá sér í lagi þá sem þurfa að fara um fjallvegi að vera rétt útbúin til þess varðandi dekkjabúnað. Þá viljum við einnig hvetja bændur til að skoða sín mál varðandi búfénað og gera ráðstafanir telji þeir þess þörf. Allar nánari upplýsingar er að finna á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar hverju sinni og hvetjum við ykkur öll sem þetta hret getur haft áhrif á að fylgjast þar vel með,“ segir enn fremur í pistli lögreglunnar.