Fara í efni
Óveður

Að opna brunna hefði aukið á vandann

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Norðurorka segir að meðan á háflóði stóð á sunnudaginn hafi full virkni fráveitukerfis bæjarins haldist en þrátt fyrir það hafi kerfið fyllst af vatni og ekki getað tekið við meiru. Hefðu brunnar í götum verið opnaðir á þeim tíma hefði það einungis aukið á vandann. Þrýstingur hefði aukist með þeim afleiðingum að líklega hefði flætt upp um niðurföll í húsum á mun stærra svæði en raun ber vitni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

Tilkynningin á vef Norðurorku er svohljóðandi:

„Það var mikið um að vera á Akureyri um síðustu helgi líkt og fram hefur komið í fréttum. Öflug norðanátt og há sjávarstaða orsakaði flóð á Eyrinni á sunnudag sem olli miklu tjóni en sjávarflóð sem þetta er eitt af því sem fellur undir Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Meginhlutverk Norðurorku alla daga, allt árið um kring, er að sjá til þess að grunninnviðir samfélagsins starfi eðlilega, þ.e. hitaveita, vatnsveita, rafveita og fráveita. Á meðan slæmt veður gekk yfir svæðið um helgina vann starfsfólk Norðurorku að því hörðum höndum að tryggja rekstur allra þessara veitna á Akureyri og nágrenni. Vegna atviks í flutningskerfi/byggðalínunni varð rafmagnslaust á starfssvæði okkar um hádegisbil sem hafði einhver áhrif á allar veiturnar.

Neðsti hluti Gránufélagsgötu um hádegisbil á sunnudag. Ljósmynd: Jón Stefán Jónsson

Starfsmenn fráveitu fengu boð frá vöktunarkerfi veitunnar um kl. 10 á sunnudagsmorgun og hófust strax handa við að tryggja að allar dælur fráveitukerfisins héldust inni og að fráveitukerfið væri í fullri virkni. Meðan á háflóði stóð hélst full virkni kerfisins en þrátt fyrir það fylltist kerfið af vatni og gat ekki tekið við meiru. Hefðu brunnar í götum verið opnaðir á þessum tímapunkti hefði slíkt einungis aukið á vandann, þ.e.a.s. þá hefði þrýstingur í fráveitukerfinu aukist með þeim afleiðingum að líklega hefði flætt upp um niðurföll í húsum á mun stærra svæði.

Rétt fyrir kl. 13 fór rafmagnið af á Akureyri í stutta stund eins og áður segir. Á meðan voru dælur í fráveitukerfinu keyrðar af varaafli og mat okkar er að það hafi ekki haft áhrif á þá stöðu sem upp var komin enda var þá byrjað að falla út og vatn þegar komið inn í byggingar. Um svipað leyti, eða um leið og ljóst þótti að kerfið réði við það, var farið í að opna brunna í götum í þeim tilgangi að ræsa götur.

Aðstæður eins og sköpuðust á Eyrinni sl. sunnudag eru sem betur fer mjög fátíðar. Brimgarðar gáfu sig og skoluðust í burtu með þeim afleiðingum að sjór komst nánast óhindrað inn á land. Fyrir hádegi í gær, mánudag, fundaði Norðurorka með fulltrúum frá Akureyrarbæ þar sem farið var yfir atburði helgarinnar, rýnt til gagns og rætt um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir atburði sem þessa. Stærsta málið er að verja Eyrina fyrir sjógangi með því að auka og hækka brimvarnir á ákveðnum svæðum en auk þess komu fram fleiri atriði sem huga þarf að. Samtalið mun halda áfram nú í vikunni þar sem línur verða lagðar um þær úrbætur sem framundan eru.“