Fara í efni
Norðurorka

Stór áfangi: Lögnin frá Hjalteyri tilbúin

Vinnan við að koma Hjalteyrarlögninni undir botn Glerár var einn flóknasti hluti verksins. Áin var stífluð og leidd í gegnum þrjú stór rör. Sökkum var komið fyrir á árbotni til að koma í veg fyrir að lögnin fljóti upp. Mynd: Auðunn Níelsson/Norðurorka.

Hjalteyrarlögnin svokallaða, aðveituæð Norðurorku fyrir heitt vatn frá borholum á Hjalteyri til Akureyrar, er nú fullkláruð og flytur nú Akureyringum og nærsveitungum heitt vatn til viðbótar við eldri lögn. Norðurorka segir frá þessum stóra áfanga á vef sínum. 

Vinna við fyrsta áfanga Hjalteyrarlagnarinnar hófst 2018, en rúmum þremur árum síðar kom babb í bátinn á vinnslusvæði Norðurorku á Hjalteyri, sem á endanum kann að þýða að heita vatnið komi ekki frá Hjalteyri heldur frá svæði í landi Ytri-Haga, aðeins norðan við Hjalteyri. Hjalteyrarlögnin mun þá nýtast við flutning á heitu vatni þaðan. 


Nýja lögnin var tengd við þá eldri árið 2019. Mynd: Norðurorka. 

Í umfjöllun á vef Norðurorku segir meðal annars um breytta stöðu á Hjalteyri: „Líkt og mörg er meðvituð um kom upp breytt staða á Hjalteyri undir lok ársins 2021 þegar fram komu vísbendingar um snefilmagn af sjó í jarðhitavatninu. Í ljósi þess stendur nú m.a. yfir jarðhitaleit á nýju svæði, nánar tiltekið við Ytri Haga, þar sem rannsóknir benda til að það svæði sé drjúgt. Ytri Hagi er staðsettur norðan við Hjalteyri og mun Hjalteyrarlögnin því einnig nýtast til að flytja heitt vatn frá hinu nýja vinnslusvæði í framtíðinni.“

Helstu áfangar við verkið:

  • Fyrsti áfangi árið 2018 - lagning innanbæjar á Akureyri.
    Snúið verk vegna umferðar og óvissu um legu eldri lagnakerfa
    Flóknast að leggja lögnina undir botn Glerár
  • Annar áfangi árið 2019 - Lagning frá Hjalteyri að Ósi
    Sex kílómetra lögn að Ósi, skammt norðan Hörgár
  • Þriðji áfangi árið 2020 - Lagning frá Ósi að Skjaldarvík
    Meðal annars þverun Hörgár
  • Fjórði áfangi - Bygging dælustöðvar og skilju á Hjalteyri
    Frestað vegna vísbendinga um aukið klóríðmagn í heita vatninu sem benda til snefilmagns af sjó.
  • Fimmti áfangi árið 2023 - Lagning frá Skjaldarvík til Akureyrar
    Rúmlega fimm kílómetra löng lögn frá Skjaldarvík að Hlíðarbraut á Akureyri

Myndir frá árinu 2020 þegar unnið var að því að þverun Hörgár, sem reyndist flókin í framkvæmd. Mynd: Norðurorka. 

Í umfjöllun Norðurorku er farið yfir forsöguna og framkvæmdina í stórum dráttum: 

Forsagan

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur verið eitt stærsta vinnslusvæði Norðurorku í rúmlega tuttugu ár og gefur um það bil 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Svæðið reyndist vera eitt það öflugasta á Íslandi og stóð undir allri aukningu í heitavatnsnotkun Akureyringa upp úr aldamótum, sem tvöfaldaðist á umræddu tímabili.

Flutningsgeta aðveitunnar frá Hjalteyri var takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins frá upphafi þar sem eldri lögn (300 mm) bar ekki allt það heita vatn sem bærinn þurfti á að halda á álagstímum. Því var farið í að leggja nýja aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar og er hún (500 mm) hrein viðbót þar sem eldri lögnin verður áfram nýtt.

Flókin framkvæmd á köflum

Vinnan við nýju Hjalteyrarlögnina fór fram í fimm áföngum. Vinna við fyrsta áfanga hófst árið 2018 með lagningu innan bæjarmarka Akureyrar, frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut. Allra flóknasti hluti þessa áfanga var lagning Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár. Farið var í þá framkvæmd að hausti þegar dregið hafði úr vatnsrennsli árinnar. Áin var þá stífluð og leidd í gegnum þrjú stór rör. Sökkum var komið fyrir á árbotni til að koma í veg fyrir að lögnin fljóti upp. Í framhaldinu var lögnin hífð á sinn rétta stað.

Lagning Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár árið 2018.

Þriðji áfangi verkefnisins reyndist einnig nokkuð flókinn í framkvæmd en hann fól í sér lagningu frá bænum Ósi að Skjaldarvík. Lögnin liggur skammt vestan Skipalóns og við þverun Hörgár fer hún í gegnum hólma sem þar er í ánni. Ferðalagið undir ána var því tvískipt með áfangastað í hólmanum. Stóran skurð þurfti til að hægt væri að leggja lögnina undir ána. Þar sem hann var dýpstur var hann um 5 metra djúpur. Jarðvegurinn reyndist sendinn og malarkenndur þannig að bakkarnir runnu mikið niður og úr varð afar breiður skurður. Notaðar voru fjórar dælur til að dæla því sem lak í gegnum jarðveginn úr skurðinum. Slíkt var nauðsynlegt bæði til að draga úr hruni/sigi úr skurðköntunum sem og til að koma rörinu niður í sökkur því flotkrafturinn í rörinu er mikill.

Vor 2023 hófst vinna við fimmta áfangann milli Akureyrar og Hjalteyrar. Í þessum loka áfanga verkefnisins var kaflinn frá Skjaldarvík að Hlíðarbraut á Akureyri kláraður, alls um 5,1 km að lengd. Vinnu við nýju Hjalteyrarlögnina lauk í upphafi sumars 2024.

Þakkir

Á vef Norðurorku segir að endingu: „Verkís sá um hönnun lagnarinnar. Efla og Mannvit voru eftirlitsaðilar. Lagning aðveituæðarinnar var í höndum Finns ehf. og Steypustöðvarinnar Dalvík. Undirverktakar þeirra sáu um samsuðu á lögnum. Rörin komu frá röraverksmiðjunni Set á Selfossi og gengu starfsmenn þeirra frá einangrun á samskeytum. Kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir gott samstarf. Norðurorka sendir einnig þakkir til landeigenda, sveitarfélaga og annarra sem komu að máli. Síðast en ekki síst þakkar Norðurorka starfsfólki sínu fyrir vel unnið verk.“