Fara í efni
Norðurorka

Reglulega ekið á götuskápa Norðurorku

Götuskápur í Freyjunesi sem nú er búið að skipta út af augljósum ástæðum. Mynd: Norðurorka.

Eitthvað virðist vera um ákeyrslur á götuskápa Norðurorku, jafnvel þannig að ökumenn láti ekki vita af tjóni. Norðurorka birti stutta frétt um skemmda götuskápa á vef sínum og biðlar til ökumanna að aka varlega í kringum götuskápana.

Þar kemur fram að á hverju ári verði götuskápar fyrir tjóni vegna ákeyrslu, en þeir eru mikilvægur hluti af dreifikerfi ragmangs. „Í einhverjum tilfellum eru tjónin minniháttar þannig að skápurinn einungis skekkist lítillega en í öðrum tilfellum er tjónið meira og afleiðingarnar geta orðið alvarlegar. Fyrir utan rafmagnsleysi sem oft fylgir tjóni á götuskáp, þá geta götuskáparnir breyst í slysagildru og orðið hættulegir þeim sem þá snerta,“ segir um þetta efni í frétt á vef Norðurorku

Með fréttinni eru birtar myndir af tveimur götuskápum sem keyrt hefur verið á nýlega. Annar þeirra var í Hálöndum og er bent á að á myndinni megi sjá blett inni í skápnum eftir ljósboga. Skápurinn hefur verið gerður hættulaus og honum skipt út. Sá seinni var í Freyjunesi og einnig búið að fjarlægja hann og koma öðrum fyrir.

Götuskápur í Hálöndum sem ekið hafði verið á. Mynd: Norðurorka.

„Ökum varlega í kringum götuskápa og látum vita ef við verðum vör við skemmdir á þeim," eru hvatningarorð Norðurorku til íbúa í þessu sambandi. Þá er einnig bent á að í nútímasamfélagi sem er háð rafmagni öllum stundum sé gott til þess að vita að brugðis sé fljótt við atvikum eins og hér eru nefnd, hvort sem er á dagvinnutíma eða öðrum. „Starfsfólk Norðurorku er meðvitað um mikilvægi þessarar þjónustu sem rafmagnsdreifing er og um sinn þátt í að hún sé alltaf til staðar og virki.“