Fara í efni
Norðurorka

Mögulegar útfærslur skoðaðar á næstunni

Norðurorka hefur ekki verið hluti af samtali um fráveitumál við Kjarnalund á milli Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og eigenda Kjarnalundar enda ekki aðili að málinu. Rekstur rotþróa á svæðinu er almennt á ábyrgð húseigenda. Þetta kemur fram í svari Norðurorku við fyrirspurn frá Akureyri.net í framhaldi af umfjöllun um skólpmál við Hótel Kjarnalund. 

Í fyrsta lagi eftir 2030

Í svari Norðurorku kemur einnig fram að frá því að fyrirtækið tók við fráveitukerfi bæjarins í upphafi árs 2014 hafi legið ljóst fyrir að fráveita á svæðinu, meðal annars við Kjarnalund, myndi ekki tengjast fráveitukerfi bæjarins fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2030. Ummæli Hildar Magnúsdóttur hótelstjóra um óskýr svör komi því á óvart.

Skýringin er sú að uppbygging fráveitukerfis þurfi að vera í takt við uppbyggingu bæjarins og samkvæmt núverandi aðalskipulagi, sem gildir til 2030, sé ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu í suðurátt. En þegar þar að komi muni þurfa að stækka fráveitukerfið og byggja dælustöð. Þar með myndi opnast möguleiki á tengingu við Kjarnalund.

Formlegt erindi í gær 

Aftur á móti bendir Norðurorka á að ef vilji er til þess að fyrirtækið taki við rekstri rotþróa á svæðinu þurfi að óska eftir því formlega. Slík beiðni hafi ekki borist fyrirtækinu fyrr en í gær, 3. september, þar sem óskað var eftir viðræðum. Norðurorka hefur tekið vel í þá beiðni og muni funda með hlutaðeigandi á næstunni og skoða mögulegar útfærslur. 

Svar Norðurorku er svohljóðandi:

Varðandi spurningu um hvað hafi verið gert eða sé í bígerð þegar kemur að úrbótum í þeirri stöðu sem nú er komin upp í fráveitumálum við Kjarnalund, er vísað alfarið á samtal HNE og húseiganda. Norðurorka hefur ekki verið hluti af því samtali, enda ekki aðili að málinu. Rekstur rotþróa á svæðinu er almennt á ábyrgð húseiganda.

Frá því að Norðurorka tók við fráveitukerfi bæjarins í upphafi árs 2014 hefur legið ljóst fyrir að fráveita á svæðinu, m.a. við Kjarnalund, myndi ekki tengjast fráveitukerfi bæjarins fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2030. Það skýrist af því að uppbygging fráveitukerfis þarf að vera í takt við uppbyggingu bæjarins. Samkvæmt núverandi aðalskipulagi sem gildir til ársins 2030 er ekki gert ráð fyrir frekari stækkun Naustahverfis til suðurs en þegar þar að kemur mun þurfa að stækka fráveitukerfið og byggja dælustöð. Þar með opnast möguleikinn á að tengja Kjarnalund og fleiri á svæðinu, við fráveitukerfi bæjarins.

En eins og áður hefur komið fram þá hafa þessi áform legið alveg skýrt fyrir frá því Norðurorka tók við rekstri fráveitu á Akureyri fyrir tíu árum síðan. Ummæli Hildar Magnúsdóttur hótelstjóra í Kjarnalundi, um að óskýr svör fáist frá fyrirtækinu þegar spurt er um framtíðaruppbyggingu fráveitukerfis á svæðinu, koma því á óvart.

Hinsvegar, ef vilji er til þess að Norðurorka taki við rekstri rotþróa á svæðinu, þá er það eitthvað sem óska þarf eftir með því að hafa samband við fyrirtækið. Það hafði hinsvegar ekki borist formleg beiðni þar um fyrr en í gær, 3. september 2024, þegar Norðurorku barst erindi þar sem meðal annars er óskað eftir viðræðum. Norðurorka hefur tekið vel í þá beiðni og mun á næstu dögum funda með hlutaðeigandi og skoða mögulegar útfærslur.