Maddie Sutton með þrennu í sigri á Val

Kvennalið Þórs í körfubolta náði aftur vopnum sínum í kvöld þegar Þórsstelpurnar tóku á móti liði Vals í Íþróttahöllinni á Akureyri. Það væru ýkjur að tala um lægð hjá liðinu þó þrír leikir hafi tapast að lokinni 12 leikja sigurhrinu, en 11 stiga sigur á liði Vals, 84-73, var þó sannarlega kærkominn og mikilvægur í toppbaráttu Bónusdeildarinnar.
Seigla, barátta og smá aukakraftur frá þeim sem mættu í stúkuna skiluðu góðri forystu sem liðið náði að halda í þrátt fyrir ítrekuð áhlaup gestanna. Það var líka gaman að sjá þrennu aftur hjá Maddie Sutton, eða þrefaldri tvennu, en hún náði tveggja stafa tölu í þremur tölfræðiþáttum leiksins, skoraði 12 stig, tók 16 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.
Höfðu góð tök á leiknum lengst af
Þórsliðið náði fljótt undirtökunum og jók forystuna alveg fram í byrjun annars leikhluta. Munurinn var þá orðinn 18 stig, 33-15, en þá svöruðu gestirnir með 11 stiga áhlaupi og staðan orðin 33-26 um miðjan annan leikhluta. Munurinn þó áfram í kringum tíu stigin og munaði níu stigum að loknum fyrri hálfleiknum.
„Ekki á minni vakt!“ gæti Ásta Júlía Grímsdóttir hugsað þegar Emma Karólína Snæbjarnardóttir sækir að körfu Vals, en Emma svarar bara: „Jú, víst,“ og skorar þrátt fyrir stærðarmun og varnartilburði Ástu Júlíu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Þórsstelpurnar höfðu áfram góð tök á leiknum og héldu 10-15 stiga forystu út þriðja leikhlutann, fóru upp í 20 stiga mun í byrjun þess fjórða, en þá kom áhlaup frá Val og þegar um þrjár mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í níu stig. Ekki laust við að stuðningsmenn Þórs væru orðnir kvíðnir fyrir framhaldinu enda getur níu stiga munur verið fljótur að hverfa í körfubolta þegar annað liðið hrekkur í gírinn. En þá kom þessi ótrúlega karfa sem Emma Karólína Snæbjarnardóttir skoraði (sjá mynd) og staðan orðin 78-67. Þórsstelpurnar hleyptu gestunum ekki of nálægt það sem eftir var og lönduðu 11 stiga sigri.
- Þór - Valur (30-15) (16-22) 46-37 (18-12) (20-24) 84-73
Staðan í deildinni
Tölfræði leiksins
Amandine Toi skoraði flest stig í Þórsliðinu í kvöld, 24, og stal að auki þremur boltum. Maddie Sutton var að venju með alvöru framlag eins og áður sagði, skoraði 12 stig, tók 16 fráköst og átti 11 stoðsendingar, með 33 framlagsstig. Í Valsliðinu var það Jiselle Thomas sem skoraði mest, 25 stig.
Ekki alveg til síðasta blóðdropa
Athygli vekur hve mikill munur er á fjölda villa á milli liðanna, 19 hjá Þór og 13 hjá Val, en mestu munaði tíu villum þegar Þórsliðið hafði fengið 17 villur og Valur sjö. Þegar upp var staðið hafði Esther Fokke farið út af með fimm villur og þær Eva Wium, Emma Karólína og Amandine allar komnar með fjórar. Maddie Sutton spilaði hins vegar þennan leik án þess að fá á sig villu, en tók engu að síður 16 fráköst. Ef til vill var fall fararheill því í uppkastinu í upphafi leiks fékk Maddie olnboga úr Valsliðinu í andlitið og þurfti að stöðva leikinn til að loka fyrir blæðingu. Baráttan var kannski ekki til síðasta blóðdropa, en einhverjir voru blóðdroparnir þó.
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Amandine Toi 24 - 4 - 4
- Maddie Sutton 12 - 16 - 11 - 33 framlagsstig
- Esther Fokke 13 - 4 - 1
- Eva Wium Elíasdóttir 12 - 6 - 4
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 10 - 4 - 1
- Natalia Lalic 10 - 2 - 0
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 3 - 2 - 0
Staðan í A-hlutanum er nú þannig að Haukar eru í efsta sætinu með 16 sigra, þá koma Njarðvíkingar með 14 og Þór í 3. sætinu með 13 sigra.
Keflvíkingar eru í 4. sæti með 12 sigra og Valur með níu. Haukar og Njarðvík eiga leik inni á hin þrjú liðin. Þór situr yfir í næstu umferð, en þá mætast Njarðvík og Keflavík annars vegar og Valur og Haukar hins vegar.