Kvarta til ráðuneytis vegna Orkustofnunar
Norðurorka hefur ákveðið að leggja fram kvörtun til ráðuneytis umhverfis- orku- og loftslagsmála vegna málsferðar Orkustofnunar varðandi umsókn fyrirtækisins um nýtingarleyfi fyrir Ytri Haga á Ársskógsströnd.
Norðurorka segir málið hafa dregist úr hófi, 15 mánuðir eru síðan fyrirtækið sótti um leyfið og kveðst hafa svarað öllum spurningum Orkustofnunar og lagt fram öll gögn sem beðið hafi verið um. Þung áhersla er lögð á að málið varði almannahagsmuni til að mæta brýnni þörf á heitu vatni á svæðinu.
Á síðasta fundi stjórnar Norðurorku, 30. janúar var var eftirfarandi samþykkt í ljósi þess að Orkustofnun hafði enn ekki svarað erindinu:
Norðurorka er nú að bora rannsóknarholur í landi Ytri Haga á Árskógsströnd til að geta staðsett væntanlega vinnsluholu á svæðinu. Sótt var um nýtingarleyfi til Orkustofnunar í október 2022 en nú, 15 mánuðum síðar, hefur Orkustofnun ekki enn afgreitt erindið. Norðurorka sendi orkumálastjóra tölvupóst í byrjun desember 2023 og óskaði eftir því að hún beitti sér fyrir bættri málsmeðferð þar sem málið hafði dregist úr hömlu hjá stofnuninni. Erindi það var ítrekað 19. desember. Þar sem engin svör höfðu borist frá Orkustofnun sendi Norðurorka stofnuninni bréf 19. janúar þar sem vísað var í ákvæði stjórnsýslulaga um málshraða. Í bréfinu er þess óskað að stofnunin veiti upplýsingar um ástæður fyrir þeim töfum sem orðið hafa á afgreiðslu málsins og þess krafist að stofnunin upplýsi um það hvenær ákvörðunar sé að vænta. Jafnframt áskilur Norðurorka sér rétt til að kæra málsmeðferð Orkustofnunar.
Stjórn telur óásættnlegt að enn hafi ekki borist svar frá Orkustofnun vegna umsóknar Norðurorku um nýtingarleyfi fyrir Ytri Haga sem óskað var eftir fyrir 15 mánuðum og telur málið hafa dregist úr hófi í meðferð Orkustofnunar. Norðurorka hefur svarað öllum þeim spurningun sem stofnunin hefur beint til hennar og veitt öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir, án þess þó að niðurstaða fáist, né að upplýsingar berist um ástæður tafanna. Stjórn felur forstjóra að leggja fram kvörtun til Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytis vegna þessara tafa stjórnvalds á ákvörðun máls, byggða á 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Stjórn leggur þunga áherslu á að málið varði almannahagsmuni til að mæta brýnni þörf á heitu vatni á svæðinu og bregðast við skortstöðu
sem fer hratt vaxandi.