Fara í efni
Norðurorka

Heita vatnið: Hvað geta notendur gert?

Heitum pottum hefur fjölgað mjög á Akureyri á síðustu árum eins og annars staðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

VATN – V

Í fyrri greinum hér á Akureyri.net um hitaveitumál og Norðurorku hefur komið fram að á undanförnum 20 árum hafi heildarnotkun á heitu vatni tvöfaldast en á sama tíma hefur íbúum einungis fjölgað um fimmtung. Ljóst er að notkunin hefur breyst á þeim rúmu 40 árum sem hitaveitan hefur verið til staðar frá því að vera nær eingöngu til húshitunar og yfir í meiri lúxusnotkun, sem er ekki fjarri lagi að tala um þegar upphituðum bílastæðum, heitum pottum og öðru slíku hefur fjölgað gríðarlega.

En hvernig getum við sem notendur aukið skynsemina í því hvernig við nýtum heita vatnið og hvað getur Norðurorka gert til að bæði hjálpa okkur við það verkefni, stuðla að betri nýtingu og jafnvel þvinga fram betri nýtingu?

Hvernig geta snjallmælar hjálpað?

Snjallmælar geta verið eitt verkfæri í þessari baráttu, hægt á þróuninni eða jafnvel snúið henni við og komið okkur aftur inn á þá braut að bera virðingu fyrir þessari auðlind, jafnvel þótt hún hafi fylgt sumum okkar alla ævi og þyki sjálfsögð lífsgæði.

Einn angi af rekstri hitaveitna undir merkjum Norðurorku er Reykjaveitan sem sér Grenvíkingum meðal annarra fyrir heitu vatni sem kemur alla leið frá Reykjum í Fnjóskadal. Reykjaveitan er því með 54 km langa lögn frá Reykjum alla leið til Grenivíkur og er næstlengsta hitaveitan á landinu, byggð upp á árunum 2006-2008. Þar hafa verið notaðir snjallmælar í um 15 ár.

Þessi veita er rekin alveg sér og er á orkumælum. Þar er Norðurorka ekki að selja rúmmetra heldur kílówattsstundir. Þetta er gert vegna þess hve löng lögnin er frá borholu til notenda. Vatnið er mjög heitt í byrjun, en kólnar á leiðinni. Ef rukkað væri fyrir rúmmetranotkun stæðu notendur mun betur að vígi eftir því sem þeir eru nær borholunni. Því var farið í að setja upp snjallmæla þannig að notendur borga eftir hitastigi og magninu sem til þeirra kemur.

Upp á hvað bjóða snjallmælarnir?

„Líkt og rafmagnsmælar bjóða þessir mælar upp á marga möguleika,“ svarar Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu hjá Norðurorku spurður um hvort hægt sé að stýra notkun með því að verð á heitu vatni sé mismunandi, t.d. eftir því á hvaða tíma sólarhringsins það er notað. „Í rafmagninu þarf til dæmis að reyna að stýra fólki í að hlaða bílana á nóttunni, en ekki klukkan fjögur á daginn í þeim tilgangi að forðast álagstoppa. Þannig bjóða þeir upp á alls konar útfærslur sem snúa að hitaveitunni og við munum klárlega skoða það.“

Núna er það þannig að notkunin er áætluð fyrir árið og notandinn borgar ákveðna upphæð á mánuði, skv. áætlunarreikningi, en árlega kemur svo uppgjörsreikningur. Með snjallmælum getur slíkt verið mun nákvæmara og notendur farið að greiða mánaðarlega fyrir raunnotkun. „Þá fer fólk að sjá muninn hjá sér,“ segir Hörður, „hvað það notar á veturna og hvað það notar á sumrin. Það verður auðveldara að fylgjast með notkuninni og viðskiptavinurinn verður meðvitaðri um notkunina.“

„Þú verður mun tengdari notkuninni þinni,“ segir Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku og nefnir sem dæmi að það hafi komið fyrir að ofn bili og vatn streymi í gegnum hann út í upphitun á bílastæði. Bilunin uppgötvast ekki fyrr en í mælaálestri eftir árið og þá hafi mikið af vatni farið til spillis auk þess sem uppgjörsreikningurinn hafi orðið mjög hár. Með snjallmælum sé minna mál að fylgjast reglulega með stöðunni þannig að neytendur verða betur meðvitaðir og fyrr hægt að grípa inn í ef t.d. bilun fer að valda sóun á vatni.

Hörður segir að með orkumælum sé hægt að mæla hitastigið frá ofnakerfinu. Með snjallmælum væri jafnvel hægt að fá meldingu um að vatn sé að koma óeðlilega heitt úr ofnakerfinu ef eitthvað bilar og þá væri hægt að grípa strax til ráðstafana til að laga það. Þessi notkun á snjallmælum er að vísu ekki í gangi hjá Norðurorku, en vissulega eitthvað sem mögulegt er að gera.

Tækifæri í notkun snjallmæla

Snjallmælarnir bjóða upp á margs konar möguleika en aðeins fáir þeirra eru nýttir í dag. „Það eru tækifæri í notkun snjallmæla þannig að þú borgar fyrir það sem þú notar, borgar bæði eftir hitastigi og magni, eins og er fyrir löngu búið að setja upp á Reykjaveitunni,“ segir Hörður.

Við endurnýjun á hitaveitumælum hafa undanfarin ár verið settir upp snjallmælar í stað rúmmetramæla. Eins og með margt annað setti heimsfaraldurinn strik í mælaskiptin og einnig innrás Rússa í Úkraínu og það hefur tafið Norðurorku í mælaskiptum. „Mælaskiptin eru vissulega komin mun skemur á veg en við hefðum viljað, en vonandi fer það að leysast“ segir Hjalti Steinn.