Fara í efni
Niceair

Óvænt símtal 10 mínútum eftir flugtak

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, kveðst harma þá röskun sem orðið hefur á flugi félagsins til London. Ekki var flogið frá Akureyri til Stansted flugvallar í dag eins og til stóð, þess í stað var farþegum flogið til Keflavíkur og þaðan fóru þeir með Icelandair til London.

„Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak í jómfrúarflugi félagsins til Bretlands fyrir viku. Í símtalinu var okkur tjáð að við fengjum ekki að taka farþega með til Íslands í því flugi þar sem leyfismál væru ekki á hreinu. Þetta kom flatt upp á okkur þar sem þessi mál hafði aldrei borið á góma í þriggja mánaða ferli með breskum yfirvöldum og ekkert skriflegt hafði borist félaginu.“

Þannig hefst pistill sem Þorvaldur Lúðvík skrifaði á Facebook í dag. Yfirskriftin var Mótvindur og meðvindur... Þorvaldur skrifar: „Var þetta símahrekkur?“

Síðan skrifar Þorvaldur Lúðvík:

„Við höfum unnið ötullega að því að fá skýrt hvað kunni að vera að, en við fengum óljósa mynd af því framan af. Síðar fengum við skýringu sem ekki er endilega sameiginlegur skilningur á.

Öllum farþegum var komið á áfangastað engu að síður.

Við höfum unnið áfram að útfærslum að lausnum, en með síðustu lausnir á borðinu í gærkveldi fengum við þau svör að nú væri að koma helgi og ekki væri tími til að vinna öll mál á svo stuttum tíma.

Þau skilaboð fengum við seint í gærkveldi.

Starfsfólk Niceair hefur unnið þrekvirki í að koma öllum farþegum sem bókaðir voru og þáðu hjálp áfram á áfangastað eftir öðrum leiðum, en við urðum að grípa til þess óyndisúrræðis að aflýsa flugum út júní. Þetta gerum við í varúðarskyni, en við vonumst vitanlega til þess að leysa þessi mál innan þess tíma.

Við höfum notið góðrar hjálpar íslenskra stjórnvalda, Utanríkisráðuneytis og Samgöngustofu, auk þess sem breska sendiráðið hafði góða aðkomu að málinu.

Ég harma að hafa valdið röskun á högum fólks sem sannarlega ætlar sér að styðja við bakið á okkur en hér lendum við í aðstæðum sem rekja má til Brexit og flækjustigs alþjóðasamninga sem aðild eiga að þrjú þjóðríki og tvö viðskiptabandalög.

Við þurftum að koma þessum tíðindum sem fyrst til sem flestra og því var send út fréttatilkynning um hádegisbil. Ekki var búið að senda aflýsingu á flugi á mánudag til farþega og eru einhverjir ósáttir við það, sem ég skil vel, en þetta var mat okkar að ná til sem flestra fyrst.

Að öllu öðru leyti hefur gengið mjög vel þessa fyrstu viku. Flug til Kaupmannahafnar og Tenerife hafa gengið mjög vel og er bókunarstaða góð út sumarið.

Ég þakka góðar kveðjur, stuðning og skilning og harma þá röskun sem orðið hefur.“

Að endingu skrifar framkvæmdastjóri Niceair: 

„Nú er gott að vera með svarta beltið í brasi“, bætir við broskalli og segir: „Áfram og upp!“