Fara í efni
Niceair

Mótmæla innviðagjaldi á skemmtiferðaskip

Í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld er meðal annars fyrirhugað að taka upp sérstakt innviðagjald, 2.500 krónur, sem reiknast á hvern hafinn sólarhring á hvern farþega skemmiferðaskipa í innanlandssiglingum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri.net hefur síðustu daga fjallað um áform stjórnvalda um að tollfrelsi skemmtiferðaskipa sem stunda hringsiglingar við Ísland verði fellt niður frá og með áramótum og sagt frá mótmælum samtaka í greininni ásamt mögulegum neikvæðum áhrifum breytingarinnar að mati þeirra.

Cruise Iceland, CLIA og AECO hafa einnig látið í sér heyra í samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þar sem meðal annars er fyrirhugað að taka upp sérstakt innviðagjald, 2.500 krónur, sem reiknast á hvern hafinn sólarhring á hvern farþega skemmiferðaskipa í innanlandssiglingum.

Samtökin lýsa harðri andstöðu við fyrirhugað innviðagjald á skemmtiferðaskip, ásamt því að ítreka andstöðu við fyrirhugað afnám tollfrelsis, sem Akureyri.net hefur fjallað um, en hvort tveggja er í bígerð að breytist þann 1. janúar. Gagnrýnin beinist að tímaramma ákvörðunarinnar um nýjan skatt, stuttum umsagnarfresti og aðlögunartíma skipafélaga að nýrri skattheimtu, upphæð skattsins og því að með þessari skattlagningu verði mismunandi mátum farþegaflutninga mismunað.

Til vara, ef ætlunin er engu að síður að leggja skattinn á, fara samtökin fram á lægri upphæð í fyrstu og stighækkandi með tímanum svo geirinn geti aðlagast nýja fyrirkomulaginu og forðast hættuna á afbókunum og fjárhagslegum skaða

Án fordæma á heimsvísu

Cruice Iceland hefur áætlað að beinar tekjur af hafnargjöldum, áætlaðri eyðslu ferðamanna, opinberum gjöldum, olíusölu, flugfargjöldum og þjónustu, eingöngu vegna skipa sem stunda hringsiglingar við Ísland væru að lágmarki 10,8 milljarðar króna.

Í umsögn samtakanna segir meðal annars: „Á meðan við fögnum því að gistináttaskattur eigi ekki lengur við um alþjóðlega farþegaflutninga með skipum þá er álagning innviðagjalds upp á 2.500 ISK á hvern farþega fyrir hvern byrjunardag sem skip dvelur við Ísland slík viðbótarálagning og skrifræði fyrir skemmtiferðaskipin að hún verður sértæk skattlagning á farþegaflutninga til landsins sem aðrir mátar farþegaflutninga til og frá Íslandi verða undanskildir. Upphæðin er fimm sinnum hærri en gistináttaskatturinn sem er aflagður og er einnig án nokkurra fordæma á heimsvísu ...“


Bent hefur verið á að innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa sé sértæk skattlagning á farþegaflutninga til landsins sem aðrir mátar farþegaflutninga til og frá Íslandi verða undanskildir. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Mat samtakanna er að verði innviðagjald lagt á með þessum hætti muni það líklega hafa miklar afleiðingar fyrir starfsemi skemmtiferðaskipa við Ísland og skapa sérstaka áhættu fyrir minni samfélög á landsbyggðinni sem reiða sig á tekjur af skemmtiferðaskipum og sé því í raun landsbyggðarskattur.

„Íslenskar rannsóknir sýna að farþegar skemmtiferðaskipa skapa miklar tekjur fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni án þess að valda umtalsverðu álagi á innviði. Hótelnætur, millilandaflug, eldsneytiskaup, flutningar, matarkaup og önnur þjónusta sem er keypt dreifist víða um landið og sérstaklega í byggðarlögum utan alfaraleiðar þar sem margir rekstraraðilar reiða sig alfarið á tekjur af skemmtiferðaskipum. Mörg samfélög hafa ennfremur lagt í umtalsverðar fjárfestingar til að þjónusta skemmtiferðaskipin á grunni tekna frá þeim og myndu þessar fjárfestingar verða í uppnámi í kjölfarið,“ segir meðal annars í umsögninni.

Sértæk skattlagning og mismunun

Samtökin benda einnig á að innviðagjaldið mismuni félögum í ferðaþjónustu með þeim hætti að aðeins farþegar skemmtiferðaskipa verði látnir greiða innviðagjald. Slíkt sé undarleg forgangsröðun af hálfu stjórnvalda.

Farþegaflutningar eru eina leiðin sem færir alþjóðlega ferðamenn beint til fjölmargra áfangastaða víða um landið, sem nefndir eru í umsögninni, en hér á svæðinu er nærtækast að vísa til Grímseyjar og Hríseyjar. Mikill meirihluti þeirra skemmtiferðaskipa sem hafa viðkomu þar eru í hringsiglingum, 83,3% þeirra sem koma til Grímseyjar og 75% þeirra sem koma til Hríseyjar. Slík samfélög standa ekki jafnfætis öðrum hvað aðgengi að ferðamönnum varðar ef eingöngu skemmtiferðaskipin eru valin úr fyrir aukna gjaldtöku, að mati samtakanna.

Þá benda samtökin á að skemmtiferðaskipin greiði nú þegar fjölda gjalda sem styðja við samfélög og innviði á landsbyggðinni og nú þegar séu til staðar fimmtán mismunandi gjöld sem farþegar skemmtiferðaskipa greiða til hafna sem skipin heimsækja. Spurt er, af hverju að leggja á eitt gjald í viðbót?

Gagnrýna tímaramma og skamman fyrirvara

Meðal þess sem einnig er gagnrýnt í umsögn samtakanna er tímaramminn. Bent er á að farmiðar í skemmtiferðaskip komi á markað með margra ára fyrirvara og því geti útgerðir skemmtiferðaskipa með engu móti aðlagast fyrirkomulaginu í tæka tíð miðað við að leggja á innviðagjald „með svo fáránlega hárri upphæð sem 2.500 ISK á farþega á dag frá 1. janúar...“ eins og segir i umsögninni.


Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Af hálfu fjármálaráðuneytisins er um einstaklega slæma stjórnsýslu að ræða að gefa aðeins tvo virka daga til að koma með andmæli við fyrirhugaða lagabreytingu,“ segir einnig í umsögninni og bent á að öll skemmtiferðaskip sem sigla við Ísland séu í eigu erlendra fyrirtækja og megi ljóst vera að ómögulegt sé að þýða lagatexta á ensku, leggja mat á áhrifin og þýða aftur á íslensku, innan svo stutts tímafrests. Þetta sé einfaldlega merki um lélega stjórnsýslu. 

Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt 15. október og hefur verið lokað fyrir innsendingu athugasemda.

Hefur starfsstjórn umboð?

Ef til vill gætu stjórnarslitin og myndun starfsstjórnar haft einhver áhrif á framgang málsins. Á það er að minnsta kosti bent í umsögninni að um stefnumarkandi ákvörðun sé að ræða sem hafi víðtæk alvarleg áhrif. Vegna alvarleika ákvörðunarinnar fyrir skemmtiferðaskipageirann og ferðaþjónustuna á Íslandi sé um að ræða pólitíska ákvörðun sem starfsstjórn hafi ekki umboð til að taka.

„Eðlilegt er að pólitískar ákvarðanir sem hafa áhrif á heilan geira ferðaþjónustunnar í mörgum sveitarfélögum séu teknar af stjórnmálamönnum sem hafi umboð til að taka slíkar ákvarðanir og verði látnir bera ábyrgð á þeim í kosningum.“