Fara í efni
Niceair

Millilandaflug um Akureyri mjög raunhæft

Reglubundið millilandaflug um Akureyrarflugvöll er mjög raunhæft, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, eigandi Circle Air. Hann er í hópi Akureyringa sem íhuga að stofna félag um slíka starfsemi og þess er ekki langt að bíða að ákvörðun liggi fyrir um það hvort af því verður.

Vinnuheiti verkefnisins er N-Ice Air (North Icelandair Air) en að því standa Samherji, Höldur og Norlandair auk Þorvaldar Lúðvíks. Hann hefur unnið að því undanfarin ár að greina möguleikana á reglubundnu flugi.

Þorvaldur Lúðvík segir um 50.000 Íslendinga hafa verið á faraldsfæti á mánuði fyrir kófið – „brottfararsæti“ þeirra árlega hafi verið alls 576.000 að meðaltali síðustu fimm ár en sú tala var hæst árið 2018, þegar „brottfararsæti“ voru 668.000! Samkvæmt könnun Ferðamálastofu hafi íbúar á höfuðborgarsvæðinu ferðast þrisvar sinnum utan á ári að meðaltali en íbúar á Norðurlandi í 2,2 skipti. „Okkar heimamarkaður er frá Hvammstanga austur að Djúpavogi, þar sem búa 46.000 manns, álíka margir og í Færeyjum. Frá Færeyjum eru þrjú til níu millilandaflug á dag,“ sagði Þorvaldur í samtali við Akureyri.net á dögunum, í kjölfar þess að hann kynnti málið á fundi Markaðsstofu Norðurlands um flugmál.

Hann bendir á að aldrei myndu allir fljúga beint frá Akureyri, þeir sem væru á leið vestur um haf yrðu til dæmis eftir sem áður að fara frá Keflavík – reikna má að það yrðu um 30% farþega – en full ástæða sé til að ætla að grundvöllur yrði fyrir flugi frá Akureyri að minnsta kosti fimm sinnum í viku er kófinu slotar.

„Miðað við tölur um ferðahegðun Íslendinga á árunum 2004 til 2019 væri markaður fyrir níu eða 10 flug á viku frá Akureyri, þó við myndum ekki gera ráð fyrir svo mörgum í okkar áætlunum. Athuganir Ferðamálastofu sýna að á þessu árabili voru 57% þjóðarinnar á faraldsfæti á hverju ári, sem samsvarar 26.258 manns á okkar heimamarkaði. Ef hver ferðast í 2,6 skipti yrðu brottfararsætin rúmlega 68.000.“

Vert er að geta þess að niðurstöður markaðskannana erlendis eru jákvæðar, að sögn Þorvaldar Lúðvíks.

Í könnun MMR fyrir N-Ice Air í janúar sögðust 78% svarenda mjög eða frekar sammála fullyrðingunni Ég myndi ferðast oftar til útlanda ef beint flug um Akureyrarflugvöll til áfangastaða í Evrópu á samkeppnishæfu verði væri í boði, 10% sögðu hvorki né, 4% voru frekar ósammála og 7% mjög ósammála. Niðurstaða könnunar MMR leiddi í ljós að íbúar Norður- og Austurlands eru spenntastir fyrir því að Kaupmannahöfn og London yrðu tengiflugvellir, en Spánn naut mestrar hylli sem endanlegur áfangastaður í beini flugi.

„Markmið okkar er að fólk komist á einum degi heiman að frá sér á endastöð úti í heimi. Kannanir sýna að það skipti fólk mestu máli og að það telji sig geta sparað 32 þúsund krónur á mann með því að fljúga frá Akureyri í stað þess að þurfa að koma sér til Keflavíkur. Þá er meira að segja ekki tekið tillit til vinnutaps. Um það bil 130 þúsund króna sparnaður fyrir fjögurra manna fjölskyldu eru miklir peningar,“ sagði Þorvaldur Lúðvík við Akureyri.net.

Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með beint flug milli Akureyrar og erlendra borga en Lúðvík bendir á nokkur atriði sem útskýra hvers vegna draumurinn rættist ekki í sum skiptin. Flugrekendur hafi verið misbúnir til verkefnisins, aðstaða og búnaður á Akureyrarflugvelli hafi verið ófullnægjandi, flugvélakostur ekki verið réttur, auk þess sem íslenskt yfirvald hafi lítinn áhuga haft á því að koma á fót millilandaflugi um Akureyri. Sumt hafi hins vegar gengið vel, til dæmis hjá Titan Airways/Super Break og Transavia.

„Við tilkynnum um næstu skref í vor eða byrjun sumars; hvort af þessu verður eða ekki, en stefnt er að því að stofna félag heimamanna til að standa að reglubundnu millilandaflugi um Akureyri – hvort sem það félag sér um flugið eða verður í samstarfi við flugrekanda.“

Spurður hvenær von megi eiga á fyrstu flugferðinni vill Þorvaldur ekki slá neinu föstu: „Mér finnst mjög líklegt að ef við förum út í þetta þá verði það á næstu misserum.“

Stefnt er að því að ný álma flugstöðvarinnar á Akureyri verði tekin í notkun árið 2023. „Þá verðum við löngu byrjaðir, ef af þessu verður á annað borð,“ segir Þorvaldur Lúðvík.