Fara í efni
Niceair

Lítill áhugi á könnun um lokun göngugötunnar

Séð norður Hafnarstrætið - göngugötuna. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Niðurstöður könnunar á viðhorfi rekstraraðila í miðbænum til lokunar göngugötunnar yfir sumarið var kynnt fyrir skipulagsráði á síðasta fundi. Athygli vekur að aðeins 15 svöruðu könnuninni, en hún var send til 52ja rekstraraðila í miðbænum.

Af þeim sem svöruðu könnuninni voru svör meirihlutans í öllum megin atriðum jákvæð eða hlutlaus gagnvart lokun göngugötunnar síðastliðið sumar og áhrifum vegna hennar. Könnunin samanstóð af þremur spurningum, auk þess sem þátttakendum gafst kostur á að koma með athugasemdir frá eigin brjósti.

Könnunin var unnin fyrir Akureyrarbæ til að kanna hug rekstraraðila til lokunar fyrir umferð vélknúinna ökutækja í göngugötunni. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sá um úrvinnslu svara. Akureyrarbær sendi könnunina til 52ja rekstraraðila í göngugötunni og bárust aðeins 15 svör.

Hversu vel eða illa hugnaðist þér fyrirkomulagið í sumar?

Hversu jákvæð eða neikvæð áhrif hafði fyrirkomulagið á rekstur þíns fyrirtækis/stofnunar?

Hvernig vilt þú sjá fyrirkomulagið næsta sumar?

Einnig var þátttakendum gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri og þar kom ýmislegt fram. 

  • Beðið um að taka tillit til þess að hér geta komið köld sumur.
  • Athugasemdir um lengd tímabils komu í báðar áttir, sumir vilja lengja, sumir stytta.
  • Heft aðgengi mjög slæmt fyrir einhver fyrirtæki.
  • Mætti vera alfarið lokað alla daga ársins með undanþágu fyrir fatlaða, viðbragðsaðila og fyrir aðföng á ákveðnum tímum. 
  • Einn þátttakandinn benti á að aðgengi fyrir P-merkta bíla og ökutæki viðbragðsaðila hafi alls ekki verið tryggt. Fyrirtækið sem um ræðir þjónar hópi fólks með ýmsar skerðingar og bárust því ítrekaðar kvartanir yfir að ekki væri hægt að keyra inn Hafnarstrætið úr suðri. Í nokkrum tilvikum hafi því verið lýst að fólk þyrfti að fara út úr bílnum og færa til hindranir til að geta keyrt inn götuna, en oftar en ekki hafi einmitt þetta fólk ekki heilsu til þess. Þá hafi komið upp tilvik þar sem ekki var hægt að keyra að húsnæði viðkomandi fyrirtækis með aðföng vegna hindrana.
  • Ítrekuð var ósk um að færa gula rammann sem er vinsæll fyrir fólk til að taka myndir. Bent er á að hávaði frá fólki sem þar staldrar mikið við berist inn um glugga á jarðhæð, inn á skrifstofur starfsfólks sem vill einbeita sér að vinnu og taka samtöl við viðkvæman hóp fólks, veikt fólk, öryrkja og eldri borgara. Fram kemur í ábendingunni að þó vel hafi verið tekið í óskir þessa efnis á liðnum misserum hafi efndir ekki fylgt orðum. Lagt er til að ramminn verði færður fjær húsinu og jafnvel staðsettur framan við verslanir þar sem eigendur myndu fagna því. Vakin er athygli á að svo langt sé síðan umrædd ósk hafi verið sett fram að erfitt sé að draga aðra áætlun en að í raun sé verið að hunsa óskina.