Fara í efni
Niceair

Körfubolti heima og að heiman í dag

Bæði körfuknattleikslið Þórs spila í dag, kvennaliðið í Hafnarfirði og karlaliðið á Akureyri. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Kvenna- og karlalið Þórs í körfuknattleik spila bæði í dag, karlarnir með heimaleik sem frestað var vegna veðurs í gær og konurnar með útileik gegn toppliði Bónusdeildarinnar.

Kvennalið Þórs mætir toppliði efstu deildar Íslandsmótsins, Bónusdeildarinnar, í dag kl. 15:30. Haukar hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum í haust, en liðið hefur innan sinna raða fyrrum leikmann Þórs, eina af þeim bestu í deildinni á síðasta tímabili, Lore Devos.

Deildin er reyndar mun jafnari í ár en í fyrra þegar Keflvíkingar töpuðu ekki leik fyrr en liðið mætti Þór í Höllinni í 9. umferð. Nú hafa liðin í 2.-5. sæti öll tapað tveimur leikjum af fyrstu fimm og liðin í 6.-9. sæti hafa unnið tvo leiki og tapað þremur, Þórsliðið þar á meðal. Fyrir leikinn í dag eru Haukar s.s. í 1. sæti deildarinnar og Þór í 7. sæti.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Ásvellir í Hafnarfirði kl. 15:30
    Haukar - Þór

Eftir erfiða byrjun hefur karlalið Þórs unnið tvo leiki í röð og er með tvo sigra eins og KFG, Selfoss, Skallagrímur og Fjölnir. KV er í 6. sæti deildarinnar, hefur unnið þrjá leiki af sex, en Þórsarar raðast í 10. sætið með tvo sigra.

Leikurinn átti að fara fram í gær, en var frestað vegna óveðursins sem gekk yfir landið.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - KV