Fara í efni
Niceair

Kom gagngert til að fara jómfrúrferðina

Fyrsti farþeginn! Þjóðverjinn Tino Oelker og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, fyrir brottför til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Þjóðverjinn Tino Oelker gerði sér ferð frá heimili sínu í München í Þýskalandi til Akureyrar í vikunni í þeim tilgangi einum að fljúga með Niceair til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn, fyrstu ferð félagsins.

Oelker hefur það óhefðbundna áhugamál að fara jómfrúrferðir flugfélaga, ferðast til og frá sérstökum flugvöllum og með óvenjulegum flugvélum.

Þessi 57 ára Þjóðverji starfar í rannsókna- og þróunardeild þýska bílaframleiðandans BMW.

München – Akureyri – München

„Ég fór með lest frá München til Berlínar, flaug með Play þaðan til Keflavíkur – mig langaði að fljúga líka með því félagi – tók Fly Bus frá flugvellinum til Reykjavíkur, síðan leið 3 með strætó að strætisvagni númer 57 og ók með honum norður í land!“ sagði þessi nákvæmi Þjóðverji í samtali við Akureyri.net á Akureyrarflugvelli í bítið á fimmtudaginn, áður en þota Niceair hóf sig til flugs í fyrsta sinn frá heimavellinum.

„Ég svaf um nóttina í Borgarnesi, hélt síðan áfram með leið 57 og kom til Akureyrar fyrir tveimur dögum. Í gær fór ég í Skógarböðin, í dag fer ég með Niceair til Kaupmannahafnar og seinni partinn flýg ég þaðan með Lufthansa heim til München.“

Oft með Ilyushin 62 til Kúbu

Oelker flaug mikið sem barn og segir að flugáhugann megi án efa rekja til þess. „Ég bjó í Austur-Þýskalandi sem strákur – í Berlín. Þegar ég var fimm ára fór pabbi að vinna í Havana á Kúbu og í þrjú ár ferðaðist ég oft þarna á milli með [sovéskum] Ilyushin 62 þotum. Það var langt flug og ekkert við að vera fyrir barnið; engir símar eða leikir, svo ég var aðallega í því að hlaupa fram og aftur farþegarýmið.“

Spurður hvenær hann tók upp á því að fara „fyrstu“ ferð sem flestra flugfélaga og fljúga með óvenjulegum þotum, verður Oelker hugsi. „Góð spurning!“ Svarar svo eftir stutta umhugsun: „Það eru um það bil tíu ár síðan.“

Nefnir svo að hann leggi ekki aðeins áherslu á að fara jómfrúrferðir flugfélaga, heldur reyni hann að fljúga sem oftast með nýjum eða sjaldgæfum flugvélum og til og frá sérstökum flugvöllum. „Ég og tyrkneskur vinur minn vorum til dæmis fyrstu farþegarnir sem fóru um nýja alþjóða flugvöllinn í Istanbul, sem verður sá stærsti í Evrópu. Þar eru reyndar bara tvær flugbrautir enn held ég en þær verða sex – allar samsíða.“

Oelker flettir upp í bók þar sem hann skráir allar flugferðirnar, dagsetningar, lengd, eigin hugleiðingar um flugið og fær ætíð einhvern úr áhöfninni til þess að kvitta í bókina.

„Þetta var 31. október 2018, þegar flugvöllurinn var tekinn í notkun. Þá flaug ég frá München til Istanbul og svo frá Istanbul til Ankara.“

Með Ilyushin 76 til Norður-Kóreu

„Ég hef líka mjög gaman af því að fljúga með sjaldgæfum vélum og á óvenjulega staði. Ég fór til dæmis með [norður kóreska] flugfélaginu Air Koryo til Norður-Kóreu bara til að fljúga með Ilyushin 76 fraktvél, og flaug líka með Antonov 148. Ég rakst á það í tímariti að hægt væri að fljúga til Norður-Kóreu, sem var mjög sjaldgæft, og gat ekki sleppt því tækifæri.“

Þetta var í þriðja skipti sem Oelker kemur til Íslands. „Vegna kórónaveirunnar var mjög dregið úr flugi til Bandaríkjanna svo Icelandair notaði Boeing 767 í Evrópuflugi og þá kom ég til þess að fljúga með þeirri risastóru þotu frá Keflavík til Frankfurt. Já – ég kom bara til þess!“ segir hann um aðra Íslandsferðina.

Frá Melbourne til Melbourne!

Áhugaverðast ferðalagið á ferlinum segir Oelker 13 klukkustunda flugferð frá Melbourne til ... já, Melbourne. Flogið var í 13 klukkstundir yfir Suðurskautslandið og lent á ný á byrjunarreitnum.

„Þá flaug ég frá München til Dubai, daginn eftir frá Dubai til Melbourne, næsta dag frá Melbourne til Sydney og þaðan til baka með Boeing 747 til Melbourne. Degi síðar fór ég svo í flugið langa yfir Suðurskautslandið, daginn eftir með Emirates frá Melbourne til Dubai, sem er líka 13 tíma flug, og degi síðar frá Dubai til München.“

Aldeilis ferðalag í lagi! „Þetta voru sjö flug á sex dögum og ég var alls 60 klukkutíma á flugi. Svo þegar ég lenti heima í München fór ég beint í vinnuna!“

Bókin góða þar sem Oelker skráir hjá sér öll flugin og ýmsar upplýsingar tengdar þeim. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Oelker fyrstur í röðinni á Akureyrarflugvelli áður en kallað var út í vél Niceair á fimmtudaginn.

Tino Oelker skannar brottfararspjaldið - fyrsti farþeginn í sögu Niceair.