Framkvæmdastjóri flugrekstrar Niceair
Benedikt Ólason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrar (COO) hjá Niceair. Benedikt hefur yfir 20 ára reynslu í flugi, lengst af sem flugstjóri, þjálfunarflugstjóri og Airbus-flotastjóri hjá Air Atlanta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Niceair.
„Ég hlakka mikið til að taka þátt í uppbyggingu og eflingu starfsemi Niceair á starfsvæði þess á Norður- og Austurlandi. Fyrirtækið er ungt og mikil áskorun að taka þátt í mótun þess á fyrstu stigum,“ segir Benedikt Ólason.
„Við erum glöð með að fá Benedikt til liðs við hópinn, en hans bakgrunnur og fjölbreytt reynsla er mjög góð viðbót við sterkan hóp. Það er mjög mikilvægt fyrir ungt fyrirtæki að fá til sín svo mikla og farsæla reynslu úr alþjóðlegu starfsumhverfi,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair.
Niceair hefur verið starfrækt síðan í júní á þessu ári og flýgur til Kaupmannahafnar og Spánar frá Akureyri. Fleiri áfangastaðir eru í bígerð fyrir 2023, en verkefni félagsins er fyrst og fremst að auka aðgengi erlendra ferðamanna að Norður- og Austurlandi auk þess að þjónusta íbúa þeirra landshluta, eins og það er orðað í tilkynningunni. „Starfsemin hefur verið í takti við væntingar, en sætanýting frá upphafi er 68% og hefur félagið flutt um 25 þúsund farþega. Hlutfall erlendra ferðamanna í október var um 22% og hefur farið stig vaxandi frá upphafi,“ segir þar.