Þór/KA sækir Víking heim í Bestu deildinni

Þór/KA hefur keppni í Bestu deildinni í knattspyrnu í dag þegar Stelpurnar okkar sækja Víkinga heim í Fossvoginn. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.
Liðin mættust síðast í lokaumferð efri hluta Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, í fyrrahaust. Víkingur vann leikinn og skaust upp í 3. sætið, upp fyrir Þór/KA sem endaði í 4. sætinu. Leikir liðsins í deildinni í fyrrasumar unnust báðir á útivelli. Þór/KA vann 2:1 á Víkingsvellinum, en Víkingar unnu 2:0 á Akureyri, auk sigursins í lokaleiknum.
Þór/KA hefur gengið nokkuð vel á undirbúningstímabilinu en tapaði þó tveimur lykilleikjum nýlega; fyrst 4:1 fyrir Breiðabliki í úrslitum Lengjubikarkeppninnar og síðan aftur 4:1 fyrir FHL í lokaleik Kjarnafæðismótsins. Þar með sigraði Tindastóll í mótinu en Þór/KA varð í 2. sæti.
Hulda Ósk Jónsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir hafa verið í stórum hlutverkum hjá Þór/KA síðustu ár. Bríet Fjóla Bjarnadóttir, lengst til hægri, er nýorðin 15 ára en hefur þegar komið töluvert við sögu. Myndir: Ármann Hinrik
- Besta deild kvenna í knattspyrnu
Víkingsvöllur kl. 18
Víkingur - Þór/KA
Leikmannahópurinn er lítið breyttur frá því í fyrra. Þrír erlendir leikmenn sem voru hjá Þór/KA í fyrra, Shelby Money, Lara Ivanusa og Lidija Kulis, eru allar farnar annað og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir gekk til liðs við Víking í vetur. Inn í hópinn eru komnar Eva Rut Ásþórsdóttir frá Fylki og markvörðurinn Jessica Berlin, auk þess sem inn í hópinn koma ungar heimaaldar stelpur.
Deildin hófst í gær með tveimur leikjum: Íslandsmeistarar Breiðabliks burstuðu Stjörnuna 6:1 og Þróttur vann nýliða Fram 3:1. Þrír leikir fara fram í kvöld; auk leiksins á Víkingsvellinum mætast Tindastóll og nýliðar FHL á Sauðárkróki og að Hlíðarenda mætast Valur og FH.
Næstu leikir Þórs/KA í Bestu deildinni: