Stálgrindin risin og flughlað senn malbikað
Framkvæmdir standa nú yfir við stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli, flughlað og fleira og ganga þær samkvæmt áætlun. Stálgrind flugstöðvarinnar er óðum að taka á sig mynd.
Nú er unnið að því að ganga frá efra burðarlagi flughlaðsins, að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla hjá Isavia, og er reiknað með að malbikunarframkvæmdir á flughlaðinu hefjist 19. júní. Veðrið getur haft áhrif, en áætlað er að malbikunarframkvæmdunum verði lokið um miðjan júlí. Þá á eftir að mála merkingar, ganga frá ljósum og fleiru.
Unnið er að því að ganga frá efra burðarlagi hins nýja flughlaðs norðan við nýju flugstöðvarbygginguna.
Akureyri.net sagði frá því nýlega þegar vinna hófst við að reisa grind flugstöðvarinnar. Nú er grindin óðum að taka á sig mynd og bætist við á hverjum degi. Sigrún Björk segir reiknað með að nýbyggingin verði tilbúin í lok ársins og þá verði farið í framkvæmdir og breytingar á eldra húsinu. Reiknað er með verklokum vorið 2024.