Fara í efni
Millilandaflug frá Akureyri

„Lykilatriði til að jafna árstíðasveifluna“

Stór stund! Þau hafa lengið unnið að því að koma á beinu flugi easyJet til Akureyrar. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, og Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofunni og Flugklasanum Air66N. Ljósmynd: ISAVIA/Þórhallur Jónsson

Breska flugfélagið easyJet hóf í morgun áætlunarflug milli Akureyrar og Gatwick flugvallar í London, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Þar með var áfanga náð sem stefnt hefur verið að allt frá stofnun Flugklasans Air66N árið 2011, að sögn Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

  • easyJet flýgur á milli Gatwick flugvallar og Akureyrar tvisvar í viku næstu fimm mánuði, á þriðjudögum og laugardögum.  

„Að ná inn beinu flugi á lítið þekktan flugvöll eins og Akureyri er langtímaverkefni og mikilvægt að standa vel við bakið á þeim aðilum sem taka slaginn með okkur,“  sagði Arnheiður þegar hún ávarpaði gesti í tilefni komu fyrstu vélar easyJet í morgun. Þar sagði hún frá vinnunni við að ná þessu markmiði og rifjaði upp hvað hefur verið í boði í millilandaflugi frá Akureyri á undanförnum árum.

Fórum stórhuga af stað

„Flugklasinn fór af stað sem samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu. Við fórum stórhuga af stað og stefndum að þessum árangri á aðeins 5 árum en komumst fljótt að því að stærstu hindranirnar voru í kerfinu hér heima,“ sagði Arnheiður.

„Það tók fyrstu 5 árin að ná fram stofnun Flugþróunarsjóðs en hann tók til starfa 2016 og er lykillinn að því að við höfum samningsstöðu gagnvart flugfélögunum. Síðan tók við allskonar barátta varðandi uppbyggingu á flugvellinum og önnur mál sem ég ætla ekki að fara yfir hér,“ sagði hún.

Hátíð í bæ í morgun! Frá vinstri: Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, Rosanna Medina, tengiliður easyJet við Akureyrarflugvöll, og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • „Fyrstu reglulegu flugin um Akureyrarflugvöll voru sett upp árið 2018 þegar breska ferðaskrifstofan SuperBreak reið á vaðið með vetrarflug frá 11 áfangastöðum í Bretlandi,“ rifjaði Arnheiður upp.
  • „Ríflega 2000 farþegar komu í 14 brottförum og var meðalnýtingin yfir 90%. Árið á eftir komu um 4500 farþegar sem skiluðu um 16.000 gistinóttum á svæðinu. Fjárfesting í markaðssetningu á Bretlandsmarkaði var um 50 milljónir króna hvort árið sem SuperBreak flaug hingað.“
  • „Árið 2019 kom Voigt Travel hingað í fyrsta sinn með 16 brottfarir í sumarflugi. Gistinæturnar urðu um 15.000 og skiluðu farþegarnir um 620 milljónum króna inn í hagkerfið. Fjárfesting í markaðssetningu í Hollandi nam um 100 mkr enda fór félagið strax af stað með það í huga að um langtímaverkefni væri að ræða og markaðinn þyrfti að byggja upp.“
  • „Árið 2020 bætti félagið við vetrarflugi frá Hollandi með góðum árangri og byggði verkefnið á reynslu sinni af sambærilegum verkefnum í Rovaniemi í Finnlandi. Félagið er nú enn að bæta í þessi flug og vinna að fullum krafti að markaðssetningu á Norðurlandi auk þess sem Kontiki og Edelweiss hafa bæst í hópinn með beint flug bæði að vetri og sumri frá Sviss.“ 

Farþegar með fyrstu vél Super Break frá Englandi árið 2018 bíða eftir að komast inn í flugstöðina á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Markaðssetning á Bretlandsmarkaði, þróun pakka og tengsl við ferðaskrifstofur hafa skilað sér þannig að önnur félög hafa séð tækifærið og eftirspurnina frá Bretlandi. Niceair náði því miður ekki því flugi sem ætlað var en nú hefur easyJet metið það svo að áhættan sé orðin nægilega lítil til að flug hingað sé valkostur.“
  • Fyrsti fundur Flugklasans með easyJet var árið 2014 á Routes ráðstefnu flugvalla og flugfélaga. Fulltrúar easyJet komu í kynnisferð til Norður- og Austurlands árið 2017 og var í febrúar 2020 góður fundur þar sem stefndi í að félagið tæki flugið.“ Eftir að Covid heimsfaraldurinn skall á breyttist vitaskuld allt.
  • Undirbúningsvinnan þennan tíma hefur verið ítarleg og góð og tæknifólk meðal annars komið hingað í nokkur skipti til að taka út flugvöllinn og aðstæður,“ segir Arnheiður.

Vél hollenska flugvélans Transavia á vegum Voight Travel á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands.

Arnheiður sagði í morgun að frá upp hafa sveitarfélögin á Norðurlandi staðið við bakið á Flugklasanum og greitt framlög sem nema samtals 14 milljónum króna á ári inn í verkefnið og „árið 2017 gerði ráðuneyti ferðamála fyrsta samninginn um stuðning við klasann og hefur komið með um 20 milljónir króna á ári inn í verkefnið auk þess að styðja sérstaklega við svokallað Norðausturverkefni sem er samstarf Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrúar, Isavia og Íslandsstofu,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Vert er að nefna í þessu samhengi að Akureyrarbær tilkynnti nýverið að sveitarfélagið hygðist hætta beinum fjárstuðningi við Flugklasann. „Bæjarráð telur farsælla að stuðningur verði í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands,“ sagði í bókun meirihluta ráðsins. Hér er frétt Akureyri.net um málið.

Fram kom í morgun að ráðuneyti ferðamála ætli að styðja áfram við verkefnið af fullum krafti „og er stefnt að því að stofnaður verði starfshópur sem taki til starfa 1. desember. Markmið hópsins verði að tryggja alþjóðlegt flug um Akureyrarflugvöll til framtíðar og koma með tillögur að aðgerðum vegna þessa, skipuleggja markaðsstarf og tryggja að framboð á þjónustu svo sem gistingu sé nægilegt til að mæta þörfum flugfélaganna utan háannatíma,“ sagði Arnheiður í morgun. Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net um málið fyrr í dag.

Lífsgæði íbúanna

„Nú er stór dagur í íslenskri ferðaþjónustu og tilefni til að fagna. Beint flug til Akureyrarflugvallar yfir vetrartímann eins og við erum að hefja hér í dag er lykilatriði til þess að jafna árstíðarsveifluna á Norðurlandi með rekstri heilsársferðaþjónustu og skapar tækifæri til aukinna fjárfestinga, auk þess sem þetta hefur mikil jákvæð áhrif á lífsgæði íbúanna,“ sagði Arnheiður.

Hún vonast til þess að fundað verði með easyJet til þess að fara yfir hvernig best verði stutt við félagið varðandi flug til lengri tíma. „Við höfum náð easyJet hingað í vetrarflug þetta árið og þurfum að tryggja að framhald verði á fluginu,“ sagði Arnheiður Jóhannsdóttir.