Fara í efni
Miðgarðakirkja

Skóflustunga tekin að kirkju í Grímsey

Konráð Sveinn Svafarsson, tekur fyrstu skóflustunguna að nýrri kirkju Grímseyinga í dag. Ljósmyndir: Arna Björg Bjarnadóttir

Íslenski fáninn blaki við hún í Grímsey í dag þegar fyrsta skóflustunga var tekin að nýrri kirkju í eyjunni. Eins og alþjóð veit brann Miðgarðakirkja í Grímsey til grunna ásamt öllum kirkjumunum síðastliðið haust. Það var mikið reiðarslag fyrir Grímseyinga sem þó voru strax staðráðnir í að reisa nýja kirkju. Síðan þá hefur ötullega verið unnið að undirbúningi að byggingu hinnar nýju kirkju. Hún mun rísa á grunni þeirrar gömlu en vera nokkuð stærri. Þá mun hún auk helgihalds þjóna hlutverki menningarhúss.

Í tilefni dagsins flutti Sr. Oddur Bjarni Þorkelsson, sóknarprestur Grímseyinga, stutta hugvekju. Ungur Grímseyingur, Konráð Sveinn Svafarsson, tók síðan fyrstu skóflustunguna. Að því loknu var boðið upp á veislukaffi að hætti Grímseyinga.

Fornleifafræðingar munu í vikunni kanna hvort fornleifar sé að finna þar sem hin nýja kirkja mun rísa. Ef engar mennskar minjar finnast verður í framhaldinu grafinn grunnur að nýrri kirkjubyggingu og hafist handa við smíði hennar. Áætlað er að vígja nýja kirkju sumarið 2023.

„Bygging nýrrar kirkju er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika. Þegar hafa safnast nokkrir fjármunir til byggingar hinnar nýju kirkju og eru eyjarskeggjar afar þakklátir öllum þeim sem hafa lagt verkefninu lið,“ segir í tilkynningu frá SSNE, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Þar segir að Grímseyingar standi þó frammi fyrir þeirri staðreynd að enn vanti nokkuð fjármagn til framkvæmdarinnar og hafa af því tilefni opnað söfnunarsíðu – grimsey.is/kirkja – hér er hægt að smella til að fara inn á síðuna.

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju
Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer:
565-04-250731

Séra Oddur Bjarni Þorkelsson flytur stutta hugvekju í Grímsey í dag. Ljósmyndir: Arna Björg Bjarnadóttir