Fara í efni
Miðgarðakirkja

Húsheild Hyrna fær leikskólann í Hagahverfi

Hringur er dreginn um bæinn Naust II en leikskólinn mun rísa á þeim bletti. Mynd: Þorgeir Baldursson

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar samþykkti á dögunum að ganga til samninga við Húsheild Hyrnu ehf. um hönnun og byggingu leikskóla í Hagahverfi og vísar málinu til afgreiðslu í bæjarráði.

Fjórar tillögur bárust, en ein þeirra kom ekki til mats, að því er fram kemur í niðurstöðu dómnefndar. Þrjár voru teknar til mats og tvær þeirra uppfylltu skilyrði útboðs og ákvæði útboðslýsingar og taldi dómnefnd þær koma til greina til framkvæmda.

Kostnaðaráætlun við alútboð og hönnun á leikskólanum hljóðar upp á tæpan 1,5 milljarð króna. Fyrirtækin tvö sem komu til greina á endanum voru ÁK smíði og Húsheild Hyrna. Tilboð Húsheildar Hyrnu var rúmri 51 milljón króna yfir kostnaðaráætlun (3%) og tilboð ÁK smíði rúmri 191 milljón króna (13%) yfir kostnaðaráætlun. Við mat á hagstæðasta tilboði er notað umreiknað tilboðsverð, það er tilboðsverð viðkomandi fyrirtækis þar sem einkunn matsnefndar fyrir tilboðin kemur til lækkunar á samanburðarverði. 

Leikskólanum er ætlaður staður á svæði milli Haga- og Naustahverfis, á torfu þar sem bærinn Naust II stendur. Akureyrarbær er með skipulagsbreytingu vegna svæðisins í ferli, eins og Akureyri.net greindi frá í maí.