Miðgarðakirkja
Hætta senn að bjóða þjónustu heimilislækna
24.11.2024 kl. 06:00
Heimilislæknarnir Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke.
Tveir heimilislæknar, Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, hafa undanfarna mánuði sinnt sjúklingum á Akureyri á vegum Heilsugæslunnar Urðarhvarfi í Kópavogi en starfseminni verður hætt frá og með 1. desember.
„Það er mjög miður, en við höfum um margra mánaða skeið beðið eftir svörum frá Sjúkratryggingum Íslands, án árangurs og við teljum það nú fullreynt,“ segir í tilkynningu sem birt var í gærkvöldi á Facebook síðu Heilsuverndar, móðurfyrirtækis Heilsugæslunnar Urðarhvarfi. Akureyri.net hefur oft fjallað um umrædda starfsemi á Akureyri.
- Valur Helgi og Guðrún Dóra voru staðsett í Urðarhvarfi með móttöku en sinntu auk þess sjúklingum á Akureyri með rafrænum hætti og í gegnum síma, að því er fram kemur í tilkynningunni.
- Þar kemur reyndar einnig fram, sem ekki hefur farið hátt, að síðustu mánuði hafa læknarnir einnig getað hitt skjólstæðinga sína á Læknastofum Akureyrar án vandkvæða, eins og það er orðað.
- Það er vegna leyfis sem félagið Heilsuvernd – móðurfélag heilsugæslunnar – hefur frá landlæknisembættinu.
- Heilsugæslunni Urðarhverfi var hins vegar synjað um slíkt leyfi fyrir sömu starfsmenn en þeir hafa leyfi til að sinna sjúklingum með myndsímtölum. Þetta hefur verið flókið og „óhentugra heldur en undir hatti heilsugæslunnar, líkt og leitast var eftir,“ segir í tilkynningu Heilsuverndar.
- Valur Helgi og Guðrún Dóra munu starfa áfram á Akureyri að því er segir í tilkynningunni. Ekki kemur fram hvar, en væntanlega hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) sem starfrækir heilsugæslustöð í Sunnuhlíð.
Tilkynningin á Facebook síðu Heilsuverndar er svohljóðandi í heild:
Heilsugæslan Urðarhvarfi í Kópavogi hættir að veita hættir starfssemi á Akureyri
Frá og með 1. 12 næstkomandi mun ekki lengur verða veitt læknisþjónusta heimilislækna á Akureyri á okkar vegum. Það er mjög miður, en við höfum um margra mánaða skeið beðið eftir svörum frá Sjúkratryggingum Íslands, án árangurs og við teljum það nú fullreynt.
Heilsugæslan Urðarhvarfi hefur undanfarið árið unnið markvisst að því að geta veitt þjónustu heimilislækna á Akureyri. Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknar voru staðsett í Urðarhvarfi með móttöku, auk þess sinntu þau skjólstæðingum á Akureyri með rafrænum hætti og í gegnum síma, en slíkt er heimilt og óháð staðsetningu.
Skráning á heilsugæslu er frjáls og heilsugæslum er almennt ekki heimilt að meina skjólstæðingum um skráningu, né afskrá þá. Sjúkratryggingar hins vegar meinuðu heilsugæslunni að nýta aðstöðu á Læknastofum Akureyrar til þess að hitta skjólstæðinga í febrúar síðastliðnum. Embætti Landlæknis hafnaði leyfi til rekstrar undir merkjum heilsugæslunnar á þeim forsendum að ekki væri samningur um rekstur heilsugæslustöðvar á Akureyri.
Við höfum horft á Akureyri sem sel og útstöð frá Urðarhvarfi þar sem komið sé til móts við skráða skjólstæðinga. Þá höfum við einnig sagt að komi til þess að það verði boðinn út rekstur einkarekinnar heilsugæslustöðvar á Akureyri munum við að sjálfsögðu sækjast eftir því. Stofnaður var undirskriftarlisti á vegum skjólstæðinga sem taldi ríflega 800 rafrænar undirskriftir þeirra sem vildu fylgja sínum læknum og skráning hefur verið talsverð og vaxandi. Í dag eru ríflega 1000 einstaklingar skráðir í Urðahvarfi sem eru búsettir fyrir norðan. Við höfum leitast eftir því að leysa þjónustu við þá með sem bestum hætti.
Þar sem heilsugæslunni er heimilt að vitja skjólstæðinga á sínu heimili var opnuð slík þjónusta á dagvinnutíma á Akureyri með vitjanabíl læknis sem hefur nýst vel. Nú hefur félagið í nokkra mánuði haft leyfi til rekstrar undir merkjum Heilsuverndar frá Embætti Landlæknis og læknar hitt skjólstæðinga á Læknastofum Akureyrar án vandkvæða. Þá hefur Heilsugæslan haft möguleika á myndsamtölum með sérstakri heimild. Þetta hefur þó verið flókið og óhentugra heldur en undir hatti heilsugæslunnar, líkt og leitast var eftir. Skjólstæðingar hafa verið ánægðir með þjónustuna, en fyrst og fremst með þann möguleika að geta fylgt sínum lækni. Okkur hefur þótt þetta vera gott leiðarljós. Við höfum þó óneitanlega fundið fyrir talsverðum mótvindi.
Samhliða öllu þessu ferli hafa verið samskipti við Sjúkratryggingar Íslands til þess að ná utan um viðbótarsamning á þessum forsendum sem okkur var tjáð að væri mögulegt. Illa hefur gengið að fá svör, þolinmæði minnkað og óvissa um næstu skref aukist.
Nú er sú þolinmæði á þrotum. Starfsfólk okkar hefur gert sitt besta til að tryggja skjólstæðingum okkar bestu mögulegu þjónustu undir þessum kringumstæðum, komið er að leiðarlokum. Með hagsmuni skjólstæðinga og læknanna sjálfra höfum því ákveðið í sameiningu að loka þessari þjónustu. Læknarnir munu starfa áfram á Akureyri. Skjólstæðingum okkar þar óskum við velfarnaðar og hvetjum þá til að fylgja sínum læknum.
Læknunum þökkum við frábær störf og munum sakna þess að þau séu í okkar röðum. Koma tímar, koma ráð!