Gott og heiðarlegt fólk er enn til í heiminum!

„Við heyrum svo mikið af neikvæðum fréttum, en þetta atvik sannaði að það eru enn þá til góðir og heiðarlegir einstaklingar í heiminum,” segir Karl Jónsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar, sem lenti í óvæntu ævintýri á ferðalagi sínu til London nýlega þegar hann týndi farsíma sínum í neðanjarðarlestinni.
Ótrúlegt en satt þá endurheimti Karl símann í stórborginni en hann er enn að jafna sig á atvikinu. Þegar blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til hans var fjölskyldan nýkomin aftur til landsins og hann var á fullu að æfa fyrir væntanlega tónleika hljómsveitarinnar Herramanna á Sauðárkróki í maí. Karl gaf sér þó tíma til að leggja frá sér kjuðana og deila þessari sannkölluðu sólskinssögu frá London.
Týndi símanum í neðanjarðarlestinni
„Við hjónin erum mjög hrifin af London og höfum nokkrum sinnum farið þangað en þessi ferð var farin í vetrarfríinu á forsendum yngsta sonarins, Þórhalls, og var planið í raun að skoða borgina út frá hans óskum,“ segir Karl. Á þriðja degi ferðarinnar var fjölskyldan í góðum gír að túristast þegar atvikið átti sér stað. Þau höfðu verið að ferðast með neðanjarðarlestinni þegar þau stigu út á Paddington-lestarstöðinni. Karl var varla kominn út úr lestinni þegar hann áttaði sig á því að síminn var ekki með í för. Annaðhvort hefði hann runnið úr vasa hans í lestinni eða gleymst í sætinu. „Það er ótrúlega óþægileg tilfinning að missa símann sinn. Og þó að þetta sé bara tæki þá er bara svo margt í símanum í dag sem er vont að missa, eins og t.d. rafræn skilríki og greiðslukort, að ekki sé talað um þegar maður er í stórborg erlendis þar sem maður er alltaf á Google maps. Maður áttar sig ekki á því hvað þessi tæki eru orðin ómissandi hluti af daglegu lífi fyrr en maður missir þau,“ segir Karl.
Sími Karls ferðaðist frá Paddington stöðinni, út á enda að Elephant & Castle og til baka að Queen´s Park, þar sem góðhjartaðir vegfarendur fundu hann.
Fylgdust með ferðum símans í spjaldtölvunni
Karl tók ákvörðun um að snúa tafarlaust við og leita símans. Hann tók næstu lest í von um að finna hann á endastöðinni Elephant & Castle, en án árangurs. Á meðan fóru Guðný og Þórhallur til baka á hótelið og hófu leit að símanum í gegnum staðsetningarkerfi símaforrits sem var tengt við spjaldtölvu Karls. „Sem betur fer var ég búinn að setja upp þetta öryggiskerfi á símann,“ útskýrir Karl. Guðný gat því fylgst með hreyfingu símans úr spjaldtölvunni og komst fljótlega að því að hann hafði færst til Queen’s Park-stöðvarinnar.
Karl tók lestina þangað og ræddi við starfsfólkið þar en enginn virtist hafa fundið símann. Guðný fylgdist áfram með símanum og sá að hann var enn á svæðinu. Karli tókst þó ekki að finna símann þó að stafsetningarforritið segði að síminn væri innan seilingar. „Ég byrjaði náttúrlega á því að loka öllum greiðslukortum svo enginn sem kæmist inn í símann hefði aðgang að þeim. Þá gat Guðný stillt símann þannig að eina númerið sem hægt var að hringja í úr mínum síma væri hennar númer. Ég reyndi af og til að hringja í símann en annaðhvort hringdi út eða hann var ekki innan þjónustusvæðis.”
Maður heyrir svo oft sögur af því að allt sé fullt af þjófum og óprúttnu fólki í svona stórborgum, ég var alveg orðinn sannfærður um að ég myndi aldrei sjá þennan síma aftur. En þetta sannaði að það eru til góðir og heiðarlegir einstaklingar í heiminum.
Heiðarlegir ungir menn
Alls þvældist Karl á milli lestarstöðva á Bakerloo-línunni í um þrjá klukkutíma í von um að finna símann en var þá búinn að sætta sig við að síminn væri glataður fyrir fullt og allt. „Við vorum orðin uppgefin og ákváðum að láta þetta ekki skemma ferðina,“ segir Karl sem snéri til baka á Kensington High Street-stöðina þar sem hótelið þeirra var staðsett. Fjölskyldan ákvað að gera það besta úr dvölinni og dreif sig niður í Hamleys-verslunina. Þar fær Guðný allt í einu símtal úr síma Karls. Símtalið reyndist vera frá tveimur ungum og heiðarlegum mönnum sem sögðust hafa fundið símann undir bekk í lestarvagni. „Þeir sögðu mér að þeir vildu gjarnan koma símanum aftur til mín,“ segir Karl.
Mennirnir buðust til að leggja lykkju á leið sína og hitta fjölskylduna við Picadilly Circus til að skila símanum. Þau hentust því strax af stað og tíu mínútum seinna var Karl kominn með símann sinn aftur. „Þessir piltar voru svo einlægir og vildu bara hjálpa. Ég var svo þakklátur að ég rauk á þá og knúsaði í bak og fyrir. Svo bauðst ég til að bjóða þeim í mat, en þeir afþökkuðu með brosi og sögðust bara vera ánægðir með að hafa skilað símanum til eigandans. Í alvöru talað, í stórborg eins og London, þar sem hundruð þúsunda manna fara um neðanjarðarlestirnar á hverjum degi, hversu miklar líkur eru á því að týndur sími finnist aftur? Maður heyrir svo oft sögur af því að allt sé fullt af þjófum og óprúttnu fólki í svona stórborgum, ég var alveg orðinn sannfærður um að ég myndi aldrei sjá þennan síma aftur. En þetta sannaði að það eru til góðir og heiðarlegir einstaklingar í heiminum,“ segir Karl og bætir við að þetta sé reyndar ekki í fyrsta sinn sem hann upplifir hjálpsemi fólks í London. Yfirhöfuð finnist honum Bretarnir vera boðnir og búnir til að aðstoða og bjóðist oft til þess að hjálpa að fyrra bragði. Þá segir hann að starfsfólk lestarstöðvanna hafi virkilega reynt að hjálpa honum að finna símann, þó að það hafi ekki borið árangur.
Feðgar í London með símann góða.
Erum of háð símanum
Allt er gott sem endar vel og þrátt fyrir stressið í kringum leitina að símanum segist Karl taka dýrmætan lærdóm af þessu öllu saman. Ekki bara hafi þessi upplifun styrkt trú hans á mannkyninu heldur stendur önnur tilfinning líka eftir.
„Þetta var eins og vakning. Það var verulegt áfall að missa símann því í honum eru ótrúlegustu hlutir sem maður vill ekki að lendi í höndunum á röngu fólki. Og það er í raun sú tilfinning sem situr eftir hvað við erum orðin háð símanum,” segir Karl og nefnir rafræn greiðslukort, flugmiða, ljósmyndir, aðgang að bankareikningum, rafræn skilríki, aðgang að samfélagsmiðlum, leyniorð og svo framvegis, sem dæmi um hluti sem fólk geymir í símum sínum.
Hann mælir með að allir tengi síma sína við öryggisforrit á borð við Find my phone, því það getur auðveldað fólki að finna tækin ef þau týnast, sem og að læsa þeim eins og Guðný náði að gera. Þá segir hann að síminn hans hafi verið á hljóðlausri stillingu svo enginn heyrði í honum þegar reynt var að hringja í símann. Hugsanlega hefði það flýtt fyrir endurheimt ef hljóðið hefði verið á. Þá nefnir Karl einnig að mikilvægt sé að hafa aðra greiðslumöguleika handhæga en bara í gegnum símann ef hann týnist. „Og í raun bara að treysta ekki algjörlega og eingöngu á símann, ég held að við þurfum öll að hugsa aðeins betur út í það hvað við erum farin að stóla mikið á þessi tæki,” segir Karl sem gleymir seint þessu símaævintýri í London, hvað þá að hann gleymi símanum sínum einhvers staðar í bráð, enda vinir og fjölskylda dugleg að kasta á hann þessari setningu þessa dagana: „Kalli, ertu með símann?”