Fara í efni
Miðgarðakirkja

Endurbyggir tvö hús í Grímsey fyrir rithöfundasetur

Sigtún til vinstri og Ytri-Grenivík til hægri. Skjáskot af ja.is.

Tvö hús í Grímsey ganga brátt í endurnýjun lífdaga og verða skjól fyrir rithöfunda eða annað listafólk sem þarf á afdrepi að halda fyrir listsköpun sína. Þetta eru Sigtún, byggt 1940, og Ytri-Grenivík, byggt 1950. Húsin standa syðst í Grímsey, suður undir Grímseyjarvita.

Fyrirtækið nthspace á Íslandi ehf., sem stofnað var í apríl á þessu ári, vinnur að undirbúningi þess að endurbyggja húsin ásamt því að koma upp tengibyggingu, í samstarfi við Pálmar Kristmundsson hjá PK Arkitektum. Cillín Johann Perera er stofnandi og eigandi nthspace. Hann er búsettur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, fæddur í London af írskri móður og föður frá Sri Lanka, en uppalinn í Ástralíu. 

Nokkuð er síðan búið hefur verið í húsunum og ástand þeirra bágt eftir því. Áform Cillíns og nthspace á Íslandi með endurbyggingu húsanna er að skapa aðstöðu – rými – fyrir rithöfunda eða annað listafólk til dvalar í Grímsey við listköpun, í samhljómi við íbúa eyjunnar, eins og það er orðað á vef nthspace. Verkefnið er enn í mótun og ekki komið á það stig að hægt sé að segja til um hvenær framkvæmdir hefjist eða aðstaðan verði tekin í notkun. 

Á vefsíðu nthspace er tekið fram að rými – space – sé meira en bara staðsetning. Það sé frelsi til að lifa, hugsa og vaxa að eigin óskum.

Þriðja starfsstöð nthspace

Rithöfunda- eða listamannasetur nthspace eru einnig í Tórínó á Ítalíu og Adelaide í Ástralíu, eins konar keðja sköpunarsetra sem ætluð eru sem afdrep eða rými til að styðja við vöxt upprennandi listafólks á sama tíma og þau lífga upp á samfélögin í kringum sig. 

Nafn þessa framtaks eða fyrirtækis, nthspace, er ekki tilviljun. Það vísar í norðrið – north > nth – og tekur mið af staðsetningu fyrsta rýmisins sem varð til, en það er staðsett við North Street í Adelaide-borg í Ástralíu. Norðrið heldur svo áfram sem eins konar þema því næsta setur sem komið var á fót er á Norður-Ítalíu, í Tórínó, og nú er unnið að undirbúningi þess að byggja upp það þriðja norður við heimskautsbaug, í Grímsey. 


Húsin Sigtún og Ytri-Grenivík eru syðst í Grímsey, eins og sjá má á þessum myndum. Skjáskot af map.is. 

Hver er Cillín Johann Perera?

Lausleg athugun, aðallega á síðum Wikipedia, segir okkur að Cillín Johann Perera sé ástralskur ljósmyndari, frumkvöðull og listaverkasafnari sem er best þekktur fyrir verkefnið sitt „Homeless CEO“. Það verkefni gekk út á að hann skrásetti ferðalög sín með daglegum myndum á Instagram. Hann dvaldi þá aldrei lengur en fjóra til fimm daga á sama stað, fór í 168 flugferðir og birti yfir þúsund myndir á Instagram á ferðum sínum til tuga landa á árunum 2013-2017.

Hann einnig stofnandi og forstjóri fyrirtækja í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu, til dæmis tungumálakennslunnar Language Direct og þýðingaþjónustunnar Avilinga sem þjónustar flugiðnaðinn. Þá er hann einnig safnari og stuðningsmaður lista frumbyggja Ástralíu.

Hann fæddist í London 1977, móðir hans er frá Írlandi og faðirinn frá Sri Lanka, en ólst upp í Melbourne í Ástralíu.