Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Viltu heita á MA-inga í góðgerðarviku?

Árleg góðgerðarvika nemenda Menntaskólans á Akureyri stendur nú yfir. Krakkarnir bregða jafnan á leik á ýmsan hátt og fólki gefst kostur á að heita á þá. Allt það fé sem safnast rennur til góðs málefnis; að þessu er safnað fyrir Samtök um kvennaathvarf.

Nemendur heita sjálfir hverjir á aðra en hver sem er getur að sjálfsögðu lagt sitt af mörkum. Ástæða er til að hvetja alla til að gera það.

Þegar ákveðin upphæð hefur safnast skuldbinda nemendur og í sumum tilfellum kennarar eða skólastjórnendur sig til þess að gera eitt og annað. Hér eru dæmi:

  • 500.000 – Kennararnir Ingvar, Jói, Krissi og Tryggvi mæta eins og rokk goðsagnirnar KISS í skólann
  • 550.000 – Íþróttafélag MA (ÍMA) spilar íþróttir í Fjósinu í 24 tíma
  • 600.000 – Stjórn skólafélagsins Hugins lætur „rjóma sig“
  • 650.000 – Ritstjórn skólablaðsins Munins fær sér „matching tattoo“
  • 675.000 – Skólastjórnendur og stoðteymi bjóða öllum skólanum í vöfflukaffi
  • 700.000 – Kieran, Trausti, Enok, Eskil og Þórhallur verða að „skinkum“
  • 750.000 – Hrefna, Dögun, Ísól, Matthildur, Katrín og Oliwia fara í sund frá opnun til lokunar
  • 775.000 – TÁSMA (Félag táningsstúlkna í MA) fær sér tattoo
  • 1.000.000 – Þorsteinn og Þröstur gifta sig löglega

Kvöldvaka er í Kvosinni í kvöld þar sem ýmislegt verður til skemmtunar. Aðgangseyrir er 500 krónur sem allar renna til Kvennaathvarfsins.

Markmiðið er að safna einni milljón og athygli vekur að náist það hyggjast tveir drengir í skólanum ganga í heilagt hjónaband – „löglega“ eins og tekið er fram í tilkynningum.

„Já, þetta verður allt löglegt. Þeir fara til sýslumanns og gifta sig,“ segir Birgir Orri Ásgrímsson, forseti skólafélagsins Hugins við Akureyri.net. Svo er reyndar spurning hversu lengi þeir verða giftir: „Það er ekki útilokað að þeir sæki fljótlega um skilnað en ætli það fari ekki bara eftir því hvernig hjónabandið leggst í þá!“ segir formaðurinn og hlær.

Hér eru upplýsingar fyrir þá sem vilja leggja krökkunum lið:

  • Bankareikningur 162 -15 - 382074
  • Kennitala 470997-2229
  • AUR: 852-3393