Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Má bjóða yður rótsterkt kaffi?

SÖFNIN OKKAR – XXIII

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Íslendingar voru ekki lengi að komast á bragðið þegar kaffi barst til landsins. Kaffið var að öllu jöfnu selt sem óbrenndar kaffibaunir sem voru svo brenndar á pönnu eða í kaffibrennslupottum þegar heim var komið. Það gaf þeim bæði rétta litinn og bragðið. Það þurfti þó að fylgjast vel með baununum og hreyfa þær til mátulega hratt annars brenna þær um of og þá verður bragðið beiskt.

Fyrsta kaffibrennslan var sett á laggirnar árið 1924 af O. Johnson & Kaaber hf. í Fálkahúsinu í Reykjavík. Á Akureyri hóf Stefán Árnason vinnslu á kaffibaunum í húsi stutt frá þar sem nú er Græni hatturinn. Kaffibrennsla Stefáns Árnasonar seldi kaffið í ómerktum, brúnum bréfpokum en árið 1936 færðist framleiðslan upp í Grófargil, nú Listagil, í Kaffibrennslu Akureyrar sem brenndi og malaði kaffið sem sett var í gular umbúðir og seldar undir vöruheitinu Bragakaffi.

Tvær kenningar eru um tilkomu heitisins. Annars vegar að hér sé vísað til skáldskaparguðsins Braga úr norrænu goðafræðinni. Hins vegar að heitið sé dregið af brasilísku borginni Bragança. Kaffi er vissulega örvandi efni og eflaust til þess fallið að efla skáldagáfur en síðari kenningin er öllu líklegri og á sér fyrirmynd í Ríó-kaffi sem er kennt við hafnarborgina Rio de Janeiro.

Rótsterkt kaffi?

Kaffi var ekki ódýr drykkur og ýmsar leiðir farnar til að drýgja uppáhellinguna, t.d. að bæta í hana rúgi og kúmeni en algengastur var kaffibætir. Hann er unninn úr rót jurtarinnar síkóría (kaffifífill) sem ræktuð var víða í Evrópu og notuð til manneldis. Rótin var þurrkuð, ristuð og möluð og framleiddar töflur í verksmiðjum í Evrópu. Innflutningur á kaffibæti á Íslandi hófst um miðja 19. öld þegar kaffidrykkja varð almenn. Kaffið var oft blandað með kaffi og bætinum eða jafnvel aðeins lagað með kaffibæti, sem gekk undir heitinu Export eða rótin. Má bjóða yður rótsterkt kaffi?

Pappírinn utan af kaffibætistöflunum hafði annað og meira notagildi en hylja töflurnar. Dömurnar vættu pappírinn og notuðu rauða litinn sem kinnalit.

Í Grófargili var einmitt fyrirtækið, Kaffibætisgerðin Freyja, sem var stofnuð árið 1932 af KEA og SÍS. Fyrirtækið sameinaðist Kaffibrennslunni árið 1954 undir forystu Guðmundar Guðlaugssonar verksmiðjustjóra Freyju sem var yfirmaður Kaffibrennslunnar allt til ársins 1974. Fyrirtækið flutti árið 1957 í Tryggvabraut 14 í núverandi húsnæði.

Árið 2000 sameinuðust elstu kaffiframleiðslufyrirtæki landsins, Kaffibrennsla Akureyrar hf og Kaffibrennsla O.Johnson & Kaaber hf. sem flutti framleiðslu sína norður og tryggði kaffiilminn sem stundum leggur um bæinn.

Byggt á https://www.kbr.is/is/um-okkur/sagan-okkar