Menntaskólinn á Akureyri
Lopt, Ekkert grín ..., Samskipti og Strengir
28.09.2024 kl. 12:30
Þrjár sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri í dag kl. 15.00 og í Mjólkurbúðinni var í fyrradag opnuð sýning Önnu Álfheiðar Brynjólfsdóttur, Strengir, sem stendur til 8. október.
Sýningarnar í listasafninu eru þessar
- Detel Aurand og Claudia Hausfeld – Samskipti
- Georg Óskar – Það er ekkert grín að vera ég
- Einar Falur Ingólfsson – Útlit loptsins – Veðurdagbók.
Nánar hér um sýningarnar þrjár og hér er viðtal við Georg Óskar.
Sjötta einkasýningin
Strengir/Strings er sjötta einkasýning Önnu Álfheiðar Brynjólfsdóttur. Þar sýnir hún málverk sem unnin hafa verið á þessu ári, óhlutbundin og í geometrískum anda, unnin í þrívíðu formi, eins og segir í tilkynningu. Mjólkurbúðin, salur Myndlistarfélagsins, er í sama húsi og Listasafnið.
Anna Álfheiður Brynjólfsdóttir (f. 1977) útskrifaðist með B.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og M.A. gráðu í listkennslu frá sama skóla árið 2020.
„Síðastliðin ár hefur Anna verið að vinna með óhlutbundin þrívíð form málverksins með strangflatalist sem hún nálgast á ljóðrænan hátt. Viðfangsefni verka Önnu er að leitast við að skapa samtal milli áhorfandans og myndrammans í gegnum skynjun hans og upplifun á margþættum myndfletinum þar sem litanotkun, formgerð og endurtekning spila stór hlutverk í samspili við staðsetningu, tíma og rúm. Samhliða hefur Anna undanfarin ár leitast við að kanna mörkin milli listmiðla í verkum sínum, þ.e.a.s. milli málverka, textíls og skúlptúrs/lágmynda,“ segir í tilkynningu um sýninguna.
Sýningin stendur til 8. október eins og áður sagði. Um þessa helgi er sýningin opin kl. 12.00 - 17.00, fimmtudaginn 3. október verður opið kl. 11.00 - 17.00 og um næstu helgi, föstudag 4. október til sunnudags 6. október, kl. 12.00 - 17.00.