Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Karl Frímannsson skólameistari MA

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karl Frímannsson hefur verið skipaður skólameistari Menntaskólans á Akureyri til fimm ára frá 1. ágúst. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í morgun. Það er Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem skipar í embættið.

„Karl Frímannsson hefur starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar undanfarin fjögur og hálft ár. Áður var hann meðal annars sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar og skólastjóri Hrafnagilsskóla í 13 ár. Þá starfaði hann í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um skeið, bæði sem verkefnastjóri og aðstoðarmaður ráðherra. Karl hefur starfsheitið kennari og viðbótarmenntun í stjórnun,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

„Til að styðja við undirbúning ákvörðunarinnar skipaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á umsóknargögn. Nefndina skipuðu þau Jóhann Þorvarðarson, lögfræðingur sem jafnframt var formaður, Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor hjá menntavísindasviði Háskóla Íslands og Auður Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Vinnvinn. Að mati hæfninefndar komu þrír af sjö umsækjendum helst til álita til að gegna embættinu. Meðal þeirra var Karl Frímannsson sem mennta- og barnamálaráðherra mat hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.“