Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Gestur Pétursson stýrir nýrri umhverfisstofnun

Gestur Pétursson, forstjóri PCC BakkiSilicon, hefur verið skipaður forstjóri nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar frá og með 1. janúar 2025.

Gestur Pétursson verður forstjóri nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar með aðsetur á Akureyri. Stofnunin tekur við hlutverki Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar og tekur til starfa 1. janúar 2025. Gestur hefur verið forstjóri PCC BakkiSilicon frá árinu 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytis umhverfis- og orku- og loftslagsmála í morgun. Sex manns sóttu um stöðuna. 

Í frétt ráðuneytisins segir meðal annars:

Gestur hefur áður meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Veitna, forstjóri Elkem Ísland og framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland. Gestur hefur víðtæka reynslu af stjórnun og hefur átt sæti í framkvæmdastjórnum félaga sem æðsti stjórnandi eða sem næstráðandi nær óslitið frá árinu 2004. 

Samhliða störfum fyrir Elkem Ísland hefur Gestur setið í stjórnum félaga á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars í stjórn Grænvangs - samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir og í stjórn Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Gestur lauk meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði með áherslu á orkumál og áhættustýringu frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum árið 1998.

...

Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun taka til starfa 1. janúar 2025, en nýju stofnanirnar eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að, ásamt undirstofnum, frá miðju ári 2022 og sem miða að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur.