Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Gervigreind mun breyta starfi framhaldsskóla

Karl Frímannsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri við brautskráningu frá skólanum 17. júní. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, gerði upplýsingatækni í skólastarfi að umtalsefni í ávarpi sínu við brautskráningu stúdenta frá skólanum á þjóðhátíðardaginn. Hann sagði ljóst að gervigreind mynd breyta starfi framhaldsskólanna, vonandi yrðu þær til batnaðar en uppi væru tilgátur um að skrifleg próf á tölvur og verkefni unnin í tölvum heyri brátt sögunni til og jafnvel verði skrifleg próf þreytt með blýanti eða penna einan að vopni. „Margir háskólar og jafnvel heilu þjóðirnar hafa tekið ákvörðun um það meðan verið er að ná tökum á nýjum veruleika sem fylgir gervigreindinni. Ekkert vil ég fullyrða um slíkt en verkefnið er nú þegar á okkar borðum,“ sagði skólameistari.

Kennsluhættir breyst mikið

MA hefur alla tíð verið bóknámsskóli með sterka tengingu við félagslíf nemenda, sagði Karl, og svo væri inn. „Margar hefðir hafa lifað lengi sem byggja á sögu skólans og venjum en annað hefur þróast hratt á síðustu árum í takti við samfélagið. Fullyrða má að á síðustu 10 árum hafa kennsluhættir í MA breyst umtalsvert, breyst frá hefðbundnu kennarastýrðu námi í átt að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi og auknu sjálfdæmi þeirra um sitt nám.“

Skólameistari sagði marga kennara hafa haldið inn á brautir leiðsagnarnáms og leiðsagnarmats í þeim tilgangi. „Ekki er lengur kappsmál að þylja eins margar latneskar sagnir á einum andardrætti líkt og lesa má um í bókinni Minningar úr Menntaskólanum á Akureyri. Notkun upplýsingatækni heldur áfram að aukast í skólastarfi og nú stöndum við frammi fyrir því að læra að lifa með og nýta okkur til góðs gervigreindina sem þróast svo ört að ógjörningur er að festa fingur á í hvaða áttir hún fer. Eitt er þó víst að notkun gervigreindar mun breyta starfi framhaldsskólanna. Vonandi verða þær breytingar til batnaðar en sem dæmi má taka eru tilgátur uppi um að skrifleg próf á tölvur og verkefni unnin í tölvum heyri brátt sögunni til og þess í stað aukist hlutur munnlegra prófa og jafnvel verði skrifleg próf þreytt með blýanti eða penna einan að vopni. Margir háskólar og jafnvel heilu þjóðirnar hafa tekið ákvörðun um það meðan verið er að ná tökum á nýjum veruleika sem fylgir gervigreindinni. Ekkert vil ég fullyrða um slíkt en verkefnið er nú þegar á okkar borðum.“

Aukin ábyrgð nemenda

Karl sagði kennara og starfshætti þeirra nú sem endranær stærsta einstaka áhrifaþátturinn í námi nemenda og að hans kenning væru sú að svo yrði áfram. „Tími og orka þeirra á hins vegar ekki að beinast að því hvort það var nemandinn sjálfur eða gervigreindin sem gerði umbeðinn texta eða hvort nemendur séu svo uppteknir í símanum í kennslustundum að það komi niður á námi þeirra. Þróun kennslu og skólastarfs miðar að því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og þar með að nýta tímann sinn vel í skólanum. Hlutverk kennara verður í ríkara mæli að leiða og hvetja nemendur til náms þar sem óbilandi trú á nemendum og getu þeirra liggur til grundvallar,“ sagði skólameistari.

Áfram yrðu gerðar skýrar námskröfur, kröfur um framkomu og uppbyggileg samskipti sem byggja á virðingu, kröfur um frumkvæði, gagnrýna hugsun og sköpun. „Þar á þungi menntunar að liggja innan allra námsgreina sem aðalnámskrá kveður á um. Menntun hefur þróast frá því að vera að uppistöðunni til staðreyndanám yfir það að nota þekkinguna, beita gagnrýnni og greinandi hugsun. Það breytir því ekki að eftir sem áður verðum við að muna margt og læra margt utanað sem er grunnurinn að því að við getum nýtt okkur þekkinguna. Námsaðferðir hafa breyst í takti við tækniþróun og aðrar breytingar í samfélaginu en kjarninn er óbreyttur. Við verðum ekki betri manneskjur með skjáinn stanslaust fyrir framan augun á okkur heldur með því að tileinka okkur farsæl viðhorf og samskipti sem við tökum með okkur hvert sem við förum.“

„Ef hlustað er á leiðandi forystuafl á heimsvísu í skólamálum þ.e. UNESCO og OECD þá er ljóst að menntun framtíðarinnar þarf að byggja á sköpunarhæfni, greinandi og gagnrýnni hugsun og síðast en ekki síst á félagsfærni. Í MA höfum við allar forsendur til að þróa skólastarfið í takt við tilgang menntunar og hina víðtæku stefnumörkun alþjóðasamfélagsins og vil ég undirstrika að við búum yfir mjög hæfum kennurum sem bæði vilja og þekkja leiðir til að svo megi verða. Við eigum einnig bjartsýnt, gagnrýnið og lausnamiðað ungt fólk sem á að fá tækifæri til að móta eigin framtíð. Það er tímanna tákn. “

Samstarf eða sameining?

Karl ræddi um þá ósk mennta- og barnamálaráðherra að kannað verði hvort framhaldsskólarnir tveir á Akureyri, Menntaskólinn og Verkmenntaskólinn, geti aukið samstarf sitt eða jafnvel sameinast. „Markmið ráðherra með slíkri ósk er að efla framhaldsskólastarf á Akureyri með því að fjölga valkostum fyrir nemendur, auka sveigjanleika þeirra í námi og tryggja betur að hægt verði að halda úti námi í 3. þreps áföngum. Þróunin er sú að nemendum á helsta upptökusvæði skólanna fækkar,“ sagði skólameistari og hélt áfram: „Tæplega 70% nemenda MA eru frá Akureyri, 80% frá Norðausturlandi og 95% úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi, svæði sem nær frá Djúpavogi til Hólmavíkur. Fækkun barna á þessu svæði byggir ekki á spá eða getgátum heldur tölum úr íbúaskrá og því er mikilvægt að huga að því hvernig hægt verði að halda úti öflugu framhaldsskólastarfi í þessu ljósi. Þessu til viðbótar hefur nemendum framhaldsskólanna fjölgað hlutfallslega í verk- og starfsnámi á undanförnum árum á kostnað bóknámsskólanna.“

Gamlar hefðir og nýjar slóðir

„Enginn er þó að tala um að leggja niður annan hvorn skólann, hætta með allt það góða starf sem þar er og hefur verið. Ráðherra hefur talað skýrt um það. Menntaskólinn á Akureyri á sér 143 ára sögu og henni verður ekki kastað fyrir róða. En tíminn á sér bæði hamar og meitil og beitir þeim verkfærum stundum af óvægni. Okkar er að leggja fram greiningu á raunhæfum valkostum og strax í ágúst verður skipaður starfshópur í skólanum sem mun vinna að þeirri greiningu. Mikilvægt er að fulltrúar allra hópa innan skólans komi þar að málum hvort sem það eru nemendur, starfsfólk, stjórnendur eða foreldrar. Vísa Úlfs Ragnarssonar læknis sem hann skrifaði aftan á vatnslitamynd sem ég keypti af honum fyrir tæpum 40 árum á vel við hér en hún hljóðar svo:

Þannig er vandanum varið,ég vek á því athygli bróðir.Að gæta þarf gamalla hefða,en ganga þó nýjar slóðir.

Allt er breytingum háð og við munum vanda til verka og forðast að taka illa ígrundaðar ákvarðanir. Það er hins vegar ráðherra sem tekur hina endanlegu ákvörðun,“ sagði Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.