Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

40 ára afmæli VMA fagnað – MYNDIR

Afmælishátíð! Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA, Bernharð Haraldsson fyrsti skólameistari Verkmenntaskólans og Sigríður Huld Jónsdóttir, núverandi skólameistari. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fjölmennt var og gleðin við völd í Verkmenntaskólanum á Akureyri í gær þegar haldið var upp á 40 ára afmæli skólans. Opið hús var og hátíðardagskrá í Gryfjunni þar sem flutt voru ávörp, boðið upp á tónlistaratriði og afmælistertu, og gestir skoðuðu sig um í húsakynnum skólans.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði samkomuna, svo og Ragnhildur Bolladóttir, teymisstjóri í Mennta- og barnamálaráðuneyti fyrir hönd ráðuneytisins, Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara og stúdent frá VMA 1991 rifjaði upp liðna tíð, Jasmín Arnarsdóttir, nemandi og kynningarstjóri í stjórn Þórdunu nemendafélags VMA, talaði fyrir hönd nemenda og Hálfdán Örnólfsson, kennari til 40 ára og fyrrum aðstoðarskólameistari, flutti ávarp fyrir hönd starfsfólks skólans.

Hafdís Inga Kristjánsdóttir söng við athöfnina. Hún útskrifaðist frá VMA í maí 2023 og var fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2021. Hún var í stjórn nemendafélagsin Þórdunu, söng við útskrift og tók upp VMA-lagið Akureyri ásamt JóaPé og Sprite Zero Klan, sem frumflutt var á árshátíð nemenda í mars 2024.

Þá sté í pontu Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri. Hann nefndi að félagið hefði ekki komið með blóm í tilefni dagsins – um leið og hann gjóaði augum á blómvendina á sviðinu! – heldur væri stefnt að því að færa skólanum veglega afmælisgjöf síðar.