Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

150 stúdentar brautskráðir frá MA

Glaðir nýstúdentar að lokinni myndatöku í morgun. Jón Már Héðinsson skólameistari greip til regnhlífarinnar. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í dag, á þjóðhátíðardaginn samkvæmt venju. Jón Már Héðinsson, sem nú lætur af starfi skólameistara eftir 19 ára í embætti, brautskráði þá 150 stúdenta og vert að geta þess, sem fram kom við athöfnina, að hann hefur brautskráð ríflega þriðjung allra stúdenta skólans frá upphafi!

Dúx skólans er Róbert Tumi Guðmundsson með 9,85 og Óðinn Andrason er semidúx með 9,8.

Gamalgróinn skóli en framsækinn og lausnamiðaður

„Síðustu tvö ár hafa verið sérstök, þar sem einstaklingum var gert að loka sig af. Við í MA tókumst vissulega á við lokanir en nýttum okkur sérstöðu bekkjakerfis og með góðu skipulagi gátum við haldið úti mjög mikilli staðkennslu. Við lærðum margt, prófuðum fjölbreytt fjar- nám og kennslu sem nemendur og kennarar voru fljótir að tileinka sér og sú reynsla mun örugglega fylgja okkur áfram og auðvelda okkur veginn að verða enn nútímalegri vinnustaður,“ sagði Jón Már í morgun. „Ókunnir gætu haldið að gamalgróinn skóli eins og MA hefði lent í vandræðum í þessum breytingum, en öðru nær, skólinn er framsækinn og lausnamiðaður í verkefnum og allir fljótir að aðlagast. Eftir þessar þrengingar kunnum við enn frekar að meta mikilvægi staðskóla, skólasamfélags, persónulegrar kennslu, mikilvægi félagslífs og skiljum betur að félagslegar hefðir MA sem okkur þykir hvað vænst um miða að félagstengslum og vináttu.“

Jón Már sagði kóvidið vissulega hafa sett svip á skólagöngu þeirra sem nú brautskráðust „en nám og kennsla hélt áfram, það var erfiðara fyrir suma en léttara fyrir aðra bæði nemendur og kennara. Stúdentsprófið ykkar er áfram mjög gott og með því besta sem gerist og góður vitnisburður um starf ykkar í MA.“

Félagslífið mikilvægt

„Við fundum það á vordögum þegar allt opnaðist hversu mikilvægt félagslífið í MA er. Við fórum aftur að halda kvöldvökur, gleðidaga, söngkeppni, og LMA setti upp frábæra leiksýningu, það var haldin glæsileg árshátíð, Gettu betur fór af stað, Morfís lið skólans keppti til úrslita og varð í öðru sæti. Muninn gaf út þrjú blöð, ÍMA stóð fyrir alls konar bekkjakeppni. Það var haldin góðgerðarvika þar sem nemendur gáfu afraksturinn til Aflsins. Þessi upptalning er dæmi um það öfluga félagslíf sem er í MA. Við erum meðvituð um að öflugur skóli þrífst ekki nema með blómlegu félagslífi, það vita nemendur MA og leggja áherslu á að félagslífið fái rými í skólastarfinu og stjórnendur skólans eru sammála því. Nemendur skólans taka þátt í margvíslegri keppni sem tengist fræðum og vísindum og stóðu sig vel í stærðfræðikeppni, þýskuþraut, stuttmyndakeppni í þýsku, forritunarkeppni framhaldsskólanna og efnafræðikeppni og hér eru fjölmargir afburðanemendur í ýmsum listgreinum og landsliðsfólk í íþróttum. Allir þessir nemendur bera hróður skólans víða.“

Spurningin mikilvægari en svarið

Jón Már þakkaði að síðustu nýstúdentum ánægjulegt samstarf undangengin ár. „Nú erum við á sérstökum tímamótum tregablandinnar gleði, kveðjustunda. Maður saknar þess sem skiptir máli, það finn ég þegar þið eruð að fara. Þið nýstúdentar hafið verið að þroskast og mótað mannorð ykkar í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk og mannorðið mun fylgja ykkur eins og skólinn. Ég trúi því að einkunnarorð skólans hafi mótað ykkur og að þið ræktið þau áfram með ykkur og að þið hafið eflt með ykkur kjark til að velja og hafna. Ef þið hugsið ykkur um þá er líf hvers og eins tilraun sem aldrei hefur verið gerð áður. Í þessari tilraun er spurningin mikilvægari en svarið, svarið er breytilegt enda ekki til eitt rétt svar, því að ekki er til ein rétt spurning. Hvert og eitt ykkar leitar að sínum spurningum og notar til þess hugvit sitt og siðvit og lífshamingjan markast af heilindum í þeirri leit. Nú sem fyrr er mikilvægt að gefa sér stund þegar við förum út í sumarið til að hugleiða jákvætt. Við skynjum betur mikilvægi samtalsins og samstöðunnar þegar við erum viðkvæm á skilnaðarstundu eins og núna, þess vegna er hrós og hvatning mikilvægari en nokkru sinni,“ sagði skólameistari.

„Þið skuluð rækta vinaböndin og hittast reglulega, segja sögur, því trúið mér sögurnar verða betri eftir því sem þær eru sagðar oftar, með þeim hætti ræktið þið vináttuna, í sorg og gleði er fátt betra en traustir vinir. Trúið á drauma ykkar, seiglu ykkar og trúið á hæfileika ykkar. Menntaskólinn sendir ykkur frá sér tilbúin út í lífið, til að takast á við það og háskólanám af hvaða tagi sem er. En munið að þið getið ekki keypt ykkur hamingju. Hún kemur til ykkar þegar þið eruð að strita að því litla fyrir það mikla,“ sagði Jón Már Héðinsson.

Farsæll skólameistari

Skólameistari var einnig kvaddur sérstaklega við brautskráninguna og fékk gjöf frá starfsfólki skólans. Það kom fram að hann hefur brautskráð ríflega þriðjung allra stúdenta MA. Frá upphafi (frá 1930) hafa verið brautskráðir 9193 stúdentar og af þeim hefur Jón Már brautskráð 3102. Í kveðjunni var nefnt að ein ástæðan fyrir farsæld Jóns Más sem skólameistara hefði falist í sambandi hans við nemendur, kannski væri einfaldast að segja að hann hafi borið virðingu fyrir nemendum og tekið skoðanir þeirra og álit gilt. Og það sama mætti auðvitað segja gagnvart starfsfólki.

Nýstúdentar ásamt Jóni Má Héðinssyni skólameistara og Sigurlaugu Önnu Gunnarsdóttur aðstoðarskólameistara í dag. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson.

Á leið út í lífið! Nýstúdentar eftir hópmyndatöku í dag. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson.