Valur Darri sigraði í upplestrarkeppninni

Valur Darri Ásgrímsson úr Brekkuskóla hreppti 1. sætið í Upphátt, árlegri upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, sem haldin var í gær í 24. skipti. Katrín Birta Birkisdóttir úr Síðuskóla varð í 2. sæti og Inga Karen Björgvinsdóttir úr Brekkuskóla í 3. sæti.
Keppnin var haldin í hátíðarsal Háskólans á Akureyri og var þetta í 24. skipti sem hún fer fram. Það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt hverju sinni en áður en lokahátíðin átti sér stað höfðu grunnskólar bæjarins haldið forkeppni þar sem tveir fulltrúar voru valdir til að keppa fyrir hönd hvers skóla.
Í aðdraganda hátíðarinnar var einnig blásið til keppni meðal 7. bekkja um besta veggspjaldið og fyrir valinu varð teikning Ragnheiðar Klöru Pétursdóttur, nemanda í 7. bekk Giljaskóla. Mynd hennar prýddi því veggspjald Upphátt 2025, viðurkenningarskjöl og boðskort keppninnar.
Þátttakendur í Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, eftir samkomuna í hátíðarsal Háskólans á Akureyri í gær. Mynd af vef Akureyrarbæjar.
„Nemendur og kennarar leggja talsverða vinnu í undirbúning keppninnar sem hefst árlega á degi íslenskra tungu, 16. nóvember. Sá hluti keppninnar er kallaður ræktunarhluti þar sem nemendur 7. bekkjar leggja sérstaka áherslu á upplestur, vandaðan framburð, framkomu og túlkun orða,“ segir á vef Akureyrarbæjar í dag.
„Í ár áttu sjö skólar fulltrúa í keppninni og því voru það 14 hæfileikaríkir nemendur sem lásu part úr sögunni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson og einnig ljóð eftir valda höfunda. Í þriðja hlutanum lásu nemendur ljóð að eigin vali.“
Á vef bæjarins kemur fram að í dómnefnd sátu Eyrún Huld Haraldsdóttir, Hólmkell Hreinsson og Hrund Hlöðversdóttir. „Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri sem Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir skipulagði í samstarfi við kennara og nemendur skólans. Þá fór Egill Andrason leikari, með hvatningarorð til krakkanna og allra áheyrenda.“
Það má með sanni segja að allir lesarar hafi staðið sig með miklum sóma og því var hlutskipti dómnefndar ekki auðvelt, segir í umfjöllun á vef bæjarins í dag en verðlaunasætin hrepptu að þessu sinni:
- Valur Darri Ásgrímsson, Brekkuskóla, 1. sæti
- Katrín Birta Birkisdóttir, Síðuskóla, 2. sæti
- Inga Karen Björgvinsdóttir, Brekkuskóla, 3. sæti
Styrktaraðilar keppninnar í ár voru; Sparisjóður Höfðhverfinga, Penninn Eymundsson, A4, Blómabúð Akureyrar, Mjólkursamsalan og K6 veitingar. „Háskólinn á Akureyri og Miðstöð skólaþróunar fá sérstakar þakkir fyrir frábærar móttökur og stuðning við hátíðina. Þökkum öllum upplesurum, kennurum, tónlistarflytjendum, dómurum og öðrum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessarar keppni fyrir frábæran dag,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Nemendur Tónlistarskólans á Akureyri léku á upplestrarkeppninni í gær.