Tvö töp SA-kvenna í höfuðborgarferðinni
Uppskera kvennaliðs SA í íshokkí í tveggja leikja höfuðborgarferð varð heldur rýrari en vonir stóðu til. Eitt stig heim af sex mögulegum eftir tap fyrir Fjölni í gær og tap fyrir SR eftir framlengingu og vítakeppni í dag. Hin kornunga Freyja Rán Sigurjónsdóttir skoraði ekki aðeins sitt fyrsta mark með meistaraflokki í gær heldur sitt annað mark í dag, auk þess að eiga stoðsendingu í fyrra marki SA.
Fyrri helgarleikurinn var gegn Fjölni í Egilshöllinni í gær.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Fjölnir - SA 3-1 (0-0, 3-1, 0-0)
Leikskýrslan
Ekkert var skorað í fyrsta leikhlutanum, en eftir rúma mínútu í 2. leikhluta náði Sigrún Agatha Árnadóttir forystunni fyrir Fjölni. Laura Murphy bætti við öðru marki um miðjan leikhlutann, áður en Freyja Rán Sigurjónsdóttir, 15 ára leikmaður SA, skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki og minnkaði muninn í 2-1. Kolbrún María Garðarsdóttir bætti hins vegar við þriðja markinu á lokamínútu leikhlutans. Þar við sat, ekkert var skorað í 3. leikhlutanum og Fjölnir stóð því uppi sem sigurvegari og styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar.
Markverðir beggja liða vörðu 28 skot og leikurinn því jafn að því leyti, nema hvað Fjölnisliðið átti tveimur skotum meira og skoraði tveimur mörkum meira en SA.
SA
Mark/stoðsending: Freyja Rán Sigurjónsdóttir 1/0, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1, Lara Jóhannsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 28 (90,3%).
Refsimínútur: 6.
Eins og ávallt var leiknum streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.
Freyja Rán Sigurjónsdóttir minnkar muninn í 2-1:
Spennandi allt til enda í Laugardalnum
Seinni leikurinn í helgarferðinni fór fram í Skautahöllinni í Laugardal þegar SA mætti liði Skautafélags Reykjavíkur síðdegis og úr varð hörkuleikur sem varð spennandi allt til enda.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
SR - SA 3-2 (1-1, 0-1, 1-0, 0-0, 1-0)
Leikskýrslan
Staðan í deildinni
Silvía Rán Björgvinsdóttir kom SA yfir um miðjan fyrsta leikhluta, en Friðrika Magnúsdóttir jafnaði. Freyja Rán Sigurjónsdóttir skoraði sitt annað meistaraflokksmark og kom SA yfir í 2. leikhluta, en Saga Blöndal Sigurðardóttir jafnaði í 2-2 í lokaleikhlutanum.
Jafnt var þegar tíminn rann út og því gripið til framlengingar. Ekkert var skorað í framlengingunni og því komið að vítakeppni. Silvía Rán kom SA í 1-0, en Saga Blöndal jafnaði í 1-1. Eyrún Garðarsdóttir kom SA í 2-1, en Zuzana Sliacka jafnaði í 2-2. Önnur víti SA fóru forgörðum. Shawlee varði þrjú af fyrstu fimm vítaskotum SR. Staðan 2-2 eftir fimm víti og haldið áfram í bráðabana. Þar skoraði Gunnborg Petra Jóhannsdóttir fyrir SR, en víti SA var varið og SR hirti því sigurinn og aukastigið.
Þetta er í annað skiptið sem viðureignir SA og SR ráðast eftir framlengingu og vítakeppni í vetur, en SA hafði betur í slíkum leik á Akureyri í október.
SA
Mörk/stoðsendingar: Freyja Rán Sigurjónsdóttir 1/1, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0, Amanda Ýr Bjarnadóttir 0/1, Lara Jóhannsdóttir 0/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 34 (91,89%).
Refsimínútur: 2.
SR-liðið átti mun fleiri skot á markið í dag en SA, 35 gegn 22 í venjulegum leiktíma, en Shawlee Gaudreault stóð fyrir sínu í marki SA eins og ávallt, var með tæplega 92% markvörslu, samtals 33 skot í venjulegum leiktíma, eitt í framlengingu og svo þrjú víti, en það dugði því miður ekki til í dag.
Eftir leiki helgarinnar er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 23 stig, SA í 2. sæti með 20 stig og SR með átta stig í 3. sæti.
Silvía Rán kemur SA í 1-0 á 10. mínútu leiksins:
Freyja Rán skorar sitt annað meistaraflokksmark og kemur SA aftur í forystu:
Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum hér: