Fara í efni
Menntamál

Þjóðminningarhátíð 17da júní 1909

Mynd: Hallgrímur Einarsson 1909/Minjasafnið á Akureyri

GAMLI SKÓLI – 6

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Þjóðminningarhátíð, sem svo var nefnd, var haldin austan Gamla skóla 17da júní 1909. Myndirnar tvær eru teknar þá. Á hátíðinni flutti Guðlaugur Guðmundsson, sýslumaður og bæjarfógeti á Akureyri, ræðu um gildi þjóðhátíðar- og þjóðminningardaga og Stefán Stefánsson skólameistari minntist Jóns Sigurðssonar. Á stallinum framan við húsið blaktir Hvítbláinn í sunnangolunni og hliðið upp að skólanum frá malarbornum Eyrarlandsvegi er fagurlega skreytt. Trégrindverk er komið við Eyrarlandsveg og tréstigi upp á stallinn framan við skólann.

Á myndinni vinstra megin eru nokkrir karlmenn með kúluhatta, aðrir með enskar húfur, sixpensara, og fremst fyrir miðju tveir drengir með enskar húfur á höfði og í vinstra horni er ungur drengur með kaskeiti. Til hægri á miðri myndinni má greina baksvip tveggja kvenna í peysufötum, önnur með ljóst sjal og hin svart sjal á herðum. Gluggar á Gamla skóla eru opnir og fylgjast nemendur með hátíðinni.

Á hinni myndinni, sem tekin er þennan sama dag, sjást prúðbúin börn á þýfðu Eyrarlandstúninu, drengir í matrósafötum og stúlkur í ljósum kjólum með barðastóra hatta, vafalaust eftir nýjustu tísku frá Kóngsins Kaupmannahöfn í þessum danska bæ sem Akureyri var. Til hægri er timburhúsið að Barði og yfir því má greina Svalbarðseyri og Kaldbak. Til vinstri við Gamla skóla sést Möðruvallafjall og Hvammsfjall og snjór í fjöllum þótt kominn sé miður júní.

  • Þjóðminningarhátíð 17da júní 1909 er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.