Stunguskófla Óðins – engin skóflustunga?

Hörður Oddfríðarson, ritari Sundsambands Íslands (SSÍ), færði Huldu Elmu Eysteinsdóttur bæjarfulltrúa stunguskóflu með áletraðri kveðju frá SSÍ að gjöf á aðalfundi Sundfélagsins Óðins fyrr í mánuðinum. Gjöfin er ætluð til að minna á að löngu tímabært sé að taka fyrstu skóflustungu að nýrri 50 metra innilaug á Akureyri. Frá þessu er greint á vef félagsins.
Í frétt á vef Óðins kemur fram að Hörður hafi rætt um aðstöðuleysi fyrir æfingar og keppni sundfólks á Akureyri, sem og getuleysi kjörinna fulltrúa til að standa við gefin loforð um byggingu sundlaugar. Elma þakkaði gjöfina og kvaðst myndi vinna að málinu og að því að spaðinn yrði geymdur í ráðhúsinu þar sem hann minnti bæjarfulltrúa á að koma þyrfti honum í notkun.
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, formaður Óðins, fór yfir málið í skýrslu stjórnar á aðalfundinum og lagði mikla áherslu á að ný 50 metra yfirbyggð sundlaug yrði byggð sem fyrst á Akureyri þar sem æfingaaðstaða félagsins sé afar bágborin. Þá segir að fyrirspurn félagsins til Akureyrarbæjar í mars 2024 hafi verið svarað þannig að engin áform væru uppi um að byggja slíka laug á næstunni „og því lítur út fyrir að iðkendur Óðins muni æfa áfram við frumstæðar aðstæður samanborið við iðkendur annarra sundfélaga,“ og er þar vísað til félaga á höfuðborgarsvæðinu.
Gríðarleg þörf samkvæmt mannvirkjaskýrslu SSÍ
Í kjölfar blaðaskrifa í október síðastliðinum um aðstöðuleysi félagsins komu skilaboð frá Akureyrarbæ þess efnis að nýlega værið búið að stilla upp framkvæmdaáætlun bæjarins fyrir árin 2025-2028. Þar væri gert ráð fyrir fjármagni árið 2028 til að fara í formlega vinnu við að skoða möguleika og hugmyndir um 50 metra innisundlaug á Akureyri.
Í mannvirkjaskýrslu SSÍ sem kom út í nóvember með þarfagreiningu varðandi byggingu sundlaugarmannvirkja hér á landi kemur fram að gríðarlega mikilvægt sé að byggja sem fyrst innisundlaugar á Akureyri og á Akranesi. Á Akureyri hafa sundæfingar hjá Óðni ítrekað verið felldar niður vegna veðurs, æfingar auk þess skertar og aðstaða hafi ekki skilað sundfólkinu tilætluðum árangi, að því er fram kemur í frétt félagsins.
Nýr formaður og töluverðar breytingar á stjórn
Töluverðar breytingar urðu á stjórn Óðins á aðalfundinum. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir gaf ekki kost á sér áfram sem formaður félagsins eftir fjögur ár í því embætti. Kristjana Pálsdóttir Margrétardóttir var sjálfkjörin í embætti formanns. Einar Már Ríkarðsson og Halla Björk Garðarsdóttir halda áfram í stjórn, en úr stjórn gengu Jón Valgeir Halldórsson, Jóhann Arnarson, Erna Jónsdóttir og Vala Frímannsdóttir. Inn í stjórnina í þeirra stað komu Ásta Birgisdóttir, Breki Arnarson, Bryndís Vilhjálmsdóttir og Katrín Sif Antonsdóttir. Varamenn í stjórn eru Karen Sif Stefánsdóttir og Erla Hrönn Unnsteinsdóttir.
Hvenær verður stunguskóflan notuð?
Stunguskóflugjöfin minnir á gjöf sem formaður Þórs fékk frá KA á 75 ára afmæli Þórs árið 1990. Þór fékk þá stunguskóflu að gjöf frá KA og var hún ætluð til að taka fyrstu skóflustunguna að íþróttahúsi Þórs og hefur ekki enn verið notuð til þess verks, 35 árum síðar.
Morgunblaðið greinir hins vegar frá því 23. október 2001 að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi bæjarstjóri, hafi notað skófluna til að taka fyrstu skóflustungu vegna fjölnota íþróttahúss við Skarðshlíð – húss sem síðar hlaut nafnið Boginn. Það var 11 árum frá því að skóflan kom í hús hjá Þórsurum og núna tæpum 35 árum síðar hefur hún reyndar ekki verið notuð vegna byggingar íþróttahúss Þórs.
Spurning hvort saga þeirrar stunguskóflu gefur sundfólki tilefni til bjartsýni.