Menntamál
Sprengjan reyndist virk – eytt á morgun
07.01.2025 kl. 23:00
Tundurduflið sem kom í veiðarfæri Bjargar EA. Myndin var birt á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar í kvöld.
Sprengjan sem togarinn Björg EA fékk í veiðarfærin og kom með til Akureyrar í dag reyndist virk. Um tundurdufl er að ræða, því var komið út í sjó fyrr í kvöld og dráttarbátur Hafnasamlags Norðurlands sigldi út fjörðinn með tundurduflið í togi. Sérfræðingar Landhelgisgæslunnar munu eyða því í birtingu á morgun, miðvikudag.
Eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag lagðist Björg EA að löndunarbryggjunni við fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa en þegar í ljós kom að það sem skipverjar höfðu talið gamla járntunnu var tundurdufl voru vinnsluhúsin rýmd til að fyllsta öryggis væri gætt.
Mikill viðbúnaðar var á hafnarsvæðinu í dag og hluta þess lokað. Aðgerðin varð enn umfangsmeiri í kvöld og lokaði lögregla þá enn stærra svæði eftir að sérfræðingar skáru úr um að tundurduflið væri enn virkt. Um hálftíma tók að færa sprengjuna austast á bryggjukantinn og koma því út í sjó, og að því loknu var svæðið opnað aftur og starfsfólki hleypt í vinnsluhúsið.
Dráttarbáturinn siglir út úr Fiskihöfninni í kvöld. Hún er steinsnar frá löndunarbryggju ÚA og ekki leið á löngu þar til báturinn hélt af stað út fjörðinn, afar rólega - sjá hér að neðan - með tundurduflið í togi. Vaðlaheiðin í fjarska.
„Sprengjusérfræðingarnir byrjuðu á að rannsaka sprengjuna sem reyndist vera tundurdufl,“ segir á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar í kvöld. „Tryggja þurfti hvellhettu duflsins áður en hægt var að hefja flutning þess. Að því búnu var tundurduflinu komið fyrir á lyftara og það fært innan hafnarsvæðisins. Af lyftaranum var tundurduflið híft og því komið fyrir í sjó. Næst var það dregið með dráttarbáti hafnarinnar á heppilegan stað þar sem gert er ráð fyrir að því verði eytt í birtingu á morgun.“
Tómlegt var um að litast á bílastæðinu við húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa eftir að starfsmenn voru allir sendir heim um hádegisbil.
Mikill viðbúnaður var á hafnarsvæðinu í kvöld.
Tundurduflinu var komið fyrir á lyftara og fært innan hafnarsvæðisins. Af lyftaranum var tundurduflið híft og því komið fyrir í sjónum.
Lögregla lokaði öllu hafnarsvæðinu neðan Hjalteyrargötu um tíma í kvöld á meðan tundurduflið var fært.